Lán til viðhalds félagslegra íbúða

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:51:53 (7241)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Félmrn. er ljóst að skoða þarf vandlega hvort ekki sé rétt að opna fyrir lánveitingar til meiri háttar viðgerða vegna félagslegra íbúða. Þess vegna var það fyrr í vetur að félmrn. skrifaði til Húsnæðisstofnunar og óskaði eftir mati stofnunarinnar á því hvað það kostaði að opna fyrir slíkan lánaflokk. Ráðuneytinu barst ekki bréf Húsnæðisstofnunar þar að lútandi, heldur sendi Húsnæðisstofnun beint erindi sitt um að opnað yrði fyrir slíkan lánaflokk til Alþingis sem var þá með til umfjöllunar frv. um Húsnæðisstofnun.
    Það hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu að fara yfir löggjöfina og reynsluna af félagslega íbúðakerfinu. Þeirri greinargerð verður mér skilað væntanlega innan fárra daga. Mér er kunnugt um að þar verður lagt til að opnað verði fyrir slíka lánamöguleika, en ég á ekki von á því að slíkt frv. komi fram fyrr en á hausti komanda.
    Varðandi greiðsluerfiðleikalán þá hef ég áður upplýst það hér á Alþingi að það er til skoðunar milli þriggja ráðuneyta, viðskrn., fjmrn. og félmrn., hvort hægt sé að grípa til aðstoðar við þá sem eru í miklum greiðsluerfiðleikum.