Jöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarafurðir

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:59:10 (7249)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði að beina fyrirspurn til hæstv. landbrh. varðandi fréttir sem fram hafa komið undanfarna daga um að fullkomin óvissa ríki nú um hvort samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði hafi Íslendingar heimildir til að leggja jöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarafurðir, ákveðna flokka þeirra, eins og haldið hefur verið fram. Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins í gær, og telur blaðið sig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því, þykir nú mjög tvísýnt að íslensk stjórnvöld hafi möguleika á því samkvæmt samningnum að leggja jöfnunargjald á innflutt matvæli unnin úr kjötvörum --- svo eru taldir upp ýmsir réttir --- og á hinn bóginn segir að erlend matvælafyrirtæki geti fengið greiddar útflutningsuppbætur vegna útflutnings hingað til lands og vegna slæmrar samkeppnisstöðu. Því geti svo farið að framleiðsla matvæla með allt að 20% kjöthluta leggist hér af og reiknað sé með að þar sé á ferðinni 20% af kjötmarkaðnum eða 3 þús. tonn.

    Það er náttúrlega algerlega óþolandi, hæstv. ráðherra, að nokkur óvissa ríki um þetta efni. Þar nægir ekki, eins og hæstv. landbrh. svarar í fjölmiðlum í dag, að lýsa því yfir að það sé afdráttarlaus skoðun ríkisstjórnarinnar að þetta eigi að vera svona. Það er bara ekki það sem málið snýst um. Hæstv. ríkisstjórn Íslands má að sjálfsögðu hafa þá afdráttarlausu skoðun að þetta eigi að vera heimilt samkvæmt samningnum. En það er spurningin um það hvernig efnisþættir málsins standa. Svo virðist sem talsmenn Evrópubandalagsins hafi lýst þeirri skoðun sinni á fundi sérfræðinganefndar nú fyrir skömmu að þetta sé ekki heimilt. Ég spyr því hæstv. landbrh.:
    1. Hvernig hyggst ríkisstjórnin eyða þessari óvissu?
    2. Reynist þetta ekki heimilt, hvaða áhrif mun það hafa á afstöðu hæstv. landbrh. til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði?