Jöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarafurðir

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:03:18 (7252)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er nú mjög kveðið fast að orði og krafist þess að ég fái afdráttarlaus svör varðandi landbúnaðarmál frá Evrópubandalaginu frá forvera mínum, en í hans tíð var sú ákvörðun tekin að ekki yrðu sendir fulltrúar af Íslands hálfu til þess að fjalla um landbúnaðarþáttinn í samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði þannig að mjög hefur hv. þm. skipt um skoðun síðan þá. Ég ítreka það sem ég sagði og hef margsinnis sagt í þessum ræðustól: Það er afdráttarlaust að það er heimild til þess að leggja jöfnunargjöld á innfluttar kjötvörur í iðnaðarvarningi eins og pitsu og slíkum vörum. Sú tortryggni sem hv. þm. vísar til byggist á því að í hans tíð var innflutningur leyfður á kjötvörum án jöfnunargjalda frá þessum löndum en nú var ákveðið frá síðustu áramótum að taka upp jöfnunargjöldin og það er heimilt samkvæmt þeim samningum sem við höfum gert um Evrópska efnahagssvæðið.