Jöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarafurðir

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:04:26 (7253)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Það er ákaflega erfitt, hæstv. forseti, að ræða þessi mál af einhverju viti við hæstv. landbrh. því hann virðist alls ekki hirða um eða kunna grundvallarstaðreyndir í málinu. T.d. virðist hæstv. landbrh. ekki vita að landbúnaðarþáttur þessarar samningagerðar kom til á síðustu stigum. Upphaflega var það sagt og fullyrt af báðum aðilum að landbúnaðarmál og landbúnaðarstefna og viðskipti með landbúnaðarvörur yrðu algjörlega utan við þetta viðræðuferli. Það var síðan að kröfu Evrópubandalagsins á síðustu stigum samningagerðarinnar sem landbúnðarmál komu inn í þá mynd.
    Að öðru leyti eru það náttúrlega árásir á hæstv. utanrrh., fyrrv. og núv. í einum og sama manninum, sem hæstv. landbrh. fer hér með, en hann er að fullyrða að þessum málum harfi ekki verið sinnt af hálfu fyrri ríkisstjórnar þegar hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson fór með málið.
    Ég held að hv. þm. og hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. ættu að manna sig upp í það að standa vörð um hagsmuni landbúnaðarins núna og gera það upp við samvisku sína hvort þeir vilja stofna honum í hættu með þeirri samningagerð sem þeir bera ábyrgð á en ekki reyna sífellt að finna sökudólga í fortíðinni í þessum efnum og svara svo einu sinni þeim spurningum sem lagðar eru fyrir hæstv. ráðherra. Þessi dagskrárliður er, hæstv. forseti, ekki satt, til þess að leggja spurningar fyrir ráðherra en ekki til þess að gefa þeim tækifæri til þess að snúa út úr? (Gripið fram í.) Ég held að hæstv. forseti ætti að hafa það í huga.