Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:11:58 (7258)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það verður með hverjum deginum sem líður, hverjum nýjum fréttum af þessu dæmalausa máli ljósara og ljósara að það er algjör nauðsyn að fram fari vönduð og ítarleg rannsókn á öllum aðdraganda þess. Þær fréttir, sem nú síðast í dag urðu tilefni umræðna hér fyrir stundu síðan, einar og sér kalla á það að farið sé ofan í saumana á þeim hlutum sem hafa gerst eða ekki gerst í menntmrn. þar sem nú orðið er hæstv. menntmrh. ekki aðeins margsaga í málinu heldur liggur orðið fyrir að þeim ber í grundvallaratriðum ekki saman, ráðuneytisstjóra og hæstv. ráðherra ráðuneytis, um það hvernig meðferð skjala hafi verið í ráðuneytinu og hver beri ábyrgð á tilteknum atburðum.
    Nú er það réttlæting flm. þessarar frávísunartillögu, að svo miklu leyti sem hirt var um að rökstyðja hana í fáeinum orðum hér í gær og í örfáum línum í greinargerð, að með því að fela Ríkisendurskoðun úttekt á hinum fjárhagslegu þáttum þessa máls, þá verði málið upplýst. Þeir hlutir sem voru til umræðu áðan eru ekki viðfangsefni Ríkisendurskoðunar að skoða. Það verður sífellt ljósara að kannski alvarlegustu þættir þessa máls sem þarf að rannsaka og upplýsa liggja utan verksviðs Ríkisendurskoðunar. Þess vegna er þessi tillaga um að sópa málinu undir teppið, um að þegja hneykslið í hel, um að moka ofan í forarvilpuna. Og ætla menn að láta bjóða sér það, hv. alþm., það sem hér hefur verið gert? Þess vegna er það auðvitað nauðsynlegt að byrja á því að fella þessa frávísunartillögu, afgreiða þessa þáltill. til síðari umr. sem hér liggur fyrir um kosningu sérstakrar rannsóknarnefndar og þá gefst jafnframt tækifæri til þess að leita eftir samstöðu um það hér í þinginu á hvern hátt nákvæmlega þessari úttekt verði háttað. Það ætti að vera öllum fyrir bestu og alveg sérstaklega þeim sem aðild eiga að málinu ef þeir hafa ekkert að fela, að það verði allt saman upplýst. Ég segi nei, hæstv. forseti, við þessari frávísunartillögu.