Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:14:36 (7259)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í því máli sem hér er um að ræða hefur komið í ljós eitthvert ljótasta sjóðasukk sem um getur í Íslandssögunni og er þá langt til jafnað, vissulega. Það hefur í öðru lagi komið fram að allur ferill þessa máls er löðrandi í ósannindum sem einkum beinist að hæstv. menntmrh. sjálfum þar sem menn virðast vera að sópa undir teppið mikilvægum staðreyndum í aðdraganda málsins. Það er þess vegna nauðsynlegt að málið verði rannsakað til hlítar og það verði gert af þingnefnd samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar sem fari yfir aðdraganda og forsendur málsins. Hver treystir æðstu prestunum í hinum helgu véum til að rannsaka málið sjálfir? Hver treystir því að æðstu prestarnir, sem nú slá skjaldborg um hin helgu vé, geti rannsakað málið hlutlaust í ráðherradómstólnum sem hér er um það bil að kveða upp úrskurð og þingmennirnir ætla að hlýða? Hver treystir æðsta prestinum, Ólafi G. Einarssyni, hæstv. menntmrh.? Hver treystir æðsta prestinum, Jóni Baldvini Hannibalssyni, hæstv. utanrrh.? Hver treystir æðsta prestinum, Davíð Oddssyni, hæstv. forsrh.? Ég segi: Enginn treystir þessum dómurum í ráðherradómstóli hinna helgu véa. Þess vegna segi ég nei, hæstv. forseti, við þessari tillögu sem er auðvitað hneyksli vegna þess að hún gengur út á það að banna málfrelsi og eðlilega meðferð mála á Alþingi Íslendinga.