Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:19:36 (7262)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Umræður hér á Alþingi um setningu manns í stöðu framkvæmdastjóra sjónvarps til eins árs hafa svo sannarlega verið þeim til lítils sóma sem fyrir upphlaupinu hafa staðið. Óvenjulangt hefur verið seilst í getgátum og dylgjum um einstakling sem hefur ekki nokkur tök á að bera hönd fyrir höfuð sér á þessum vettvangi. Ljóst er að þingmenn sem fyrir slíkum málatilbúnaði standa eru verstir allra til þess fallnir að kveða upp siðferðisdóma yfir öðrum mönnum. Tillaga um að fela níu þingmönnum að hefja rannsókn á ráðningu manns í starf um stundarsakir er fljótfærnislegt klaufaspark manna sem þegar hafa farið offari í málatilbúnaði sínum. Sóma þingsins vegna ber að vísa slíkri tillögu frá. Ég segi já.