Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:22:33 (7264)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég var ósammála ákvörðun hæstv. menntmrh. varðandi ráðningu framkvæmdastjóra sjónvarpsins, en ég efast ekki um að ráðherrann kann að hafa farið að lögum og hafi haft valdið í sínum höndum og vonandi að hann hafi tekið ákvörðun sína samkvæmt sinni bestu sannfæringu. En þó að skoðanir séu skiptar um þessa ráðningu og vinnubrögð, þá saka ég ráðherrann ekki um valdníðslu. Þessi

þáttur málsins um embættisfærslu menntmrh. liggur ljós fyrir hér í þinginu, hefur rækilega verið upplýstur í umræðum sem hér hafa farið fram og þarfnast því ekki frekari rannsóknar. En um hinn þátt málsins, þann þátt sem getið er um í seinni hluta tillögunnar um skipun þingnefndar, hinar fjárhagslegu hliðar og jafnvel alvarlegar ávirðingar um vafasama beitingu opinbers fjár eins og umræður í fjölmiðlum hafa vitnað um að undanförnu, um það eru allir sammála að þurfi að rannsaka og athuga gaumgæfilega. Ég tek undir að slík úttekt og athugun fari fram og nú hefur menntmrh. beðið Ríkisendurskoðun um að slíkt verði gert. En ég tel mjög eðlilegt að Alþingi eigi hlut og aðild að þeirri úttekt og að þeirri athugun.
    Í þingsköpum, 26. gr. og 31. gr., er fjallað um það hvernig með slík mál á að fara á grundvelli 26. gr. þar sem segir:
    ,,Heimilt er nefnd að eigin frumkvæði að fjalla um önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar. Um slík mál getur nefnd gefið þinginu skýrslu, sbr. 31. gr.``
    Og í 31. gr. segir:
    ,,Nefnd getur með skýrslu gert þinginu grein fyrir athugun sinni . . .  ``
    Ég styð það að slík athugun fari fram á vegum Alþingis í fjárln. ( HG: Umhvn., er það ekki?) Sú nefnd sem hér hefur verið lögð til að framkvæmi sérstaka rannsókn um þessar hliðar málsins er óþörf af því að þingsköp heimila slíkt. Ég segi því já við frávísunartillögunni.