Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:27:51 (7266)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið þátt í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um það mál sem hér er á dagskrá, en ég vil nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á því að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur margítrekað það að ein af höfuðástæðunum til þess að hún vilji einkavæða ríkisstofnanir sé sú að það eigi að færa þar stjórnunarhætti í líkingu við það sem gerist í almennum rekstri úti í þjóðfélaginu.
    Virðulegi forseti. Ég bendi á það að í þeirri atburðarás sem átt hefur sér stað innan Ríkisútvarpsins/sjónvarps hafa öll grundvallaratriði í stjórnun og rekstri sem viðgangast í almennum rekstri, m.a. í einkageiranum sem hæstv. forsrh. m.a. er mjög tamt að vitna til, hafa öll grundvallaratriði hvað þetta snertir verið brotin. Ef það gerðist í einkafyrirtæki að deildarstjóra væri sagt upp störfum af framkvæmdastjóra og stjórn fyrirtækisins réði hann daginn eftir sem aðstoðarframkvæmdastjóra, þá þætti slíkt fyrirtæki óstarfhæft og það er nánast öruggt að það yrði samstundis kallaður til hluthafafundur og gerðar viðeigandi ráðstafanir og stjórninni væntanlega vikið frá. Þannig fara nú saman orð og athafnir hjá núv. hæstv. ríkisstjórn. Þau vinnubrögð sem hér hafa verið höfð í frammi eru m.a. með þessum rökum sannarlega til þess fallin að grafa undan Ríkisútvarpinu sem stofnun og ég er þess fullviss að mikill meiri hluti þjóðarinnar stendur að baki þeim sem vilja standa vörð um þá stofnun.
    Í þessu ljósi og atburðarás síðustu daga, þá verð ég að segja það að í atkvæðaskýringu hæstv. forsrh. hér áðan var um að ræða einhverja þá mestu og augljósustu siðblindu sem ég hef heyrt um langan tíma. Þeir aðilar sem svona tala eru svo flæktir í viðkomandi atburðarás að þeir hafa ekki lengur nokkra yfirsýn yfir málið. Ég segi því nei.