Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:37:46 (7271)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég skal reyna að verða við orðum og óskum forseta, enda er ég ekki tíður gestur hér í ræðustóli til að ræða um þingsköp og skal reyna að halda mig við það mál.
    Hér í atkvæðagreiðslunni áðan gerðu tveir þingmenn, tveir hv. stjórnarliðar, grein fyrir atkvæði sínu með þeim rökum að hugsanlegt væri að fjárln. Alþingis eða aðrar þingnefndir eftir atvikum tækju að sér rannsókn á máli því sem hér hefur verið til umræðu. Ég vil lýsa því yfir fyrir mína parta sem einn af nefndarmönnum í hv. fjárln. að það er sjálfsagt að fjárln. taki til umfjöllunar og athugunar öll þau mál sem varða fjárhagsleg samskipti hins opinbera, ríkisins, við hinar ýmsu stofnanir og þá aðila sem fá eða fengið hafa fjárveitingar á fjárlögum. Um það eru sérstök ákvæði í þingsköpum Alþingis þar sem gerð er grein fyrir því, með leyfi forseta:
    ,,Fjárln. á rétt á að fá þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði.``
    Í viðbót við það sem hér kom áður fram hjá þeim hv. þm. sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu með þessum rökstuðningi, að vísa málum til þingnefnda, og í viðbót við þá grein sem hv. þm. Svavar Gestsson vitnaði til hér áðan um heimild nefnda að eigin frumkvæði að fjalla um hin ýmsu mál, það geta nefndir gert samkvæmt þingsköpum.

    Ég vil aðeins lýsa því yfir fyrir mína parta að það skal ekki standa á því að við fulltrúar Framsfl. í fjárln. séum tilbúnir til þess að vinna með hv. stjórnarliðum að slíkri úttekt eða rannsókn og að sjálfsögðu einnig að fylgjast með framvindu athugunar Ríkisendurskoðunar á þessu máli eins og fjárn. gerir með flest þau mál önnur sem Ríkisendurskoðun tekur til umfjöllunar og varða fjármál og fjármálaleg afskipti eða samskipti ríkissjóðs við hinar ýmsu stofnanir. Við fáum þær skýrslur yfirleitt til umfjöllunar í fjárln., ræðum við Ríkisendurskoðun og eitt af því sem ég held að þingið þyrfti að taka til athugunar sérstaklega er það hvernig þeim athugasemdum, sem Ríkisendurskoðun kemur á framfæri við þingið í sínum skýrslum sem hún leggur hér fyrir, er framfylgt, hvernig farið er með þau mál. Við höfum rætt það í fjárln. oftar en einu sinni og það kom hér fram í umræðum við hæstv. fjmrh. fyrir örfáum dögum, um ríkisreikning, að hugsanlega ætti það að vera formlegt hlutverk fjárln. að fara yfir slíkar skýrslur og fylgja þeim eftir. Það er e.t.v. seinni tíma mál að fjalla um það hvernig að slíku skuli staðið, en ég lýsi því hér með yfir, hæstv. forseti, að við fulltrúar Framsfl. í fjárln. erum ábyggilega tilbúnir til að fara með stjórnarliðum í þessa vinnu.