Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:45:51 (7275)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það hér úr þessum ræðustól að ég er mjög slegin yfir þeirri atkvæðagreiðslu sem átti sér stað hér áðan og ég eiginlega veit ekki hvert mér finnst ég vera komin. Mér finnst þessi beiting meirihlutavalds sem hér átti sér stað áðan svo yfirþyrmandi og í rauninni svo alvarleg tíðindi að meiri hluti Alþingis skuli með þessum hætti koma í veg fyrir rannsókn þessa alvarlega máls að það hlýtur að verða okkur öllum mikið umhugsunarefni á hvaða leið íslenskt stjórnkerfi er og þeir ráðamenn sem hér sitja. En vegna orða síðasta ræðumanns vil ég taka það fram að við kvennalistakonur erum að sjálfsögðu reiðubúnar til þess að beita okkur fyrir því í fjárln. að sú nefnd geri það sem í hennar valdi stendur til þess að halda áfram könnun þessa máls, en ég verð auðvitað að viðurkenna það að við stöndum að nokkru leyti uppi ráðalaus gagnvart þeim ráðherra sem hér á hlut að máli og hefði auðvitað fyrir löngu átt að vera búinn að segja af sér.