Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 15:57:00 (7286)

     Árni M. Mathiesen :
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að koma upp og taka þátt í þessari umræðu til að fagna sérstaklega því að þetta frv. hefur verið lagt fram og vonandi áttar hv. 11. þm. Reykv. sig enn þá betur á því hvaða stöðu þetta frv. hefur meðal stjórnarliða að ræðu minni lokinni. Því er þó ekki að heilsa að ég sé hundrað prósent sammála öllu því sem fram kemur í frv. Þau atriði sem ég tel helst gagnrýniverð eru þess eðlis að þar tel ég ekki vera nógu langt gengið í átt til aukins frjálsræðis. Þá er þar fyrst til að nefna þar sem fjallað er um lyfsöluleyfi í 21. gr. að ég teldi skynsamlegra og betur til þess fallið að koma á virkri samkeppni og meiri möguleikar væru til þess að lækka dreifingarkostnað og þar með verðlag ef lyfsöluleyfið væri ekki bundið við lyfjafræðing heldur að það fyrirtæki eða einstaklingur sem hefði verslunarleyfið og stæði fyrir rekstrinum hefði leyfið en að svipuð skilyrði gilti um þá leyfisveitingu og gildir um lyfjaheildsölu og lyfjaframleiðslu og er um það fjallað í IX. kafla og XII. kafla frv. Ég vonast til þess að hv. nefnd taki þetta til athugunar þegar hún fjallar um frv. í þinginu. Hvað lyfjaverðlagninguna varðar tel ég að sé farin skynsamleg leið að þessu sinni að setja á hámarksverð en að opið sé fyrir þann möguleika að þeir sem hafa þá hagkvæmni í rekstri geti selt lyfin ódýrari og þannig geti notendur lyfjanna notið þess.
    Ég tel hins vegar að það sé athugandi þegar fram líða stundir og við fáum meiri reynslu á það kerfi, sem hér er lagt til, að þá verði athugað að hafa fullkomið frelsi á verði lyfja.
    Í 34. gr. í XIII. kafla frv. er fjallað um lyfsölu sjúkrahúsa. Ég er sammála því sem þar kemur fram að nauðsynlegt sé að sjúkrahús geti selt lyf til þeirra sem njóta þar göngudeildarþjónustu og eru að útskrifast af sjúkrahúsunum. Það er til mikils hagræðis fyrir þá sem eru að útskrifast og göngudeildarþjónusta er þess eðlis að nauðsynlegt getur verið að sjúkrahúsin geti selt þeim sjúklingum lyf. Ég tel hins vegar að það ætti að ganga lengra en gert er í 3. mgr. 34. gr. þar sem talað er um það að stjórn sjúkrahúsa sé heimilt að leita útboða um rekstur sjúkrahússapóteks og að það ætti fremur að vera skylt að leita útboða um rekstur sjúkrahússapóteksins.
    Ég er hins vegar ekki jafnbjartsýnn á meiningu og tilgang hv. 11. þm. Reykv. og hv. 8. þm. Reykv. var. Þau orð hans sem féllu hér finnast mér frekar benda til þess að hann mundi sjálfur ef hann fengi einhverju um það ráðið beita sér mjög fyrir auknum apótekarekstri sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og jafnvel annarra heilbrigðisstofnana sem mundi tefla mjög í hættu þeirri samkeppni sem vonandi kæmist á með samþykkt þessa frv. og þeirri hagræðingu og lækkun lyfjaverðs sem við vonum að muni hljótast af því. Því hef ég trú á því að hæstv. heilbrrh. muni beita þessari grein á þann hátt að sjúkrahúsin leiti útboða þó svo að þeim sé það ekki skylt samkvæmt frv. og muni fara öðrum höndum um þennan rekstur en hv. 11. þm.

Reykv. hefði gert.
    Í 12. gr. er fjallað um neyðartilfelli þar sem lyfjafræðingum er heimilt að afhenda lyf í minnstu pakkningu án lyfseðils. Ég hef efasemdir um að þetta sé skynsamlegt og mér finnst að þau tilvik þar sem sjúklingur nær í lyfjafræðing en ekki í lækni í okkar nútímaþjóðfélagi ættu ekki að vera til. Ef svo illa skyldi vilja til að ekki næst í lækni þegar nauðsynlegt er en það næst í lyfjafræðinginn, hafa þá lyfjafræðingurinn og sjúklingurinn nægjanlega þekkingu til þess að ákvarða hugsanlega hvaða lyf eigi að nota og hins vegar að ákvarða hvernig eigi að nota það? Þá á ég við hvernig á að gefa lyfið inn, hugsanlega með því að dæla því í æð. Þetta held ég að nefndin þyrfti að hafa í huga þegar hún fer yfir þetta. Ég hef, eins og herra forseta er kannski kunnugt, meiri þekkingu á dýralyfjum en mannalyfjum og í huganum hef ég farið yfir hvaða tilfelli það gætu verið þar sem það væri réttlætanlegt að lyfsali seldi lyf vegna neyðartilfellis hjá sjúku dýri þar sem dýralæknir kæmi hvergi nærri og að gagn gæti verið af lyfjanotkuninni og ég get ekki séð hvaða tilfelli það ættu að vera. Hugsanlega eru þessi tilfelli til hvað varðar mannalyf en ef grein sem þessi á að vera í lögunum þá þarf hún að vera miklu mun betur útfærð en hún er og takmarkaðri. Ef þetta á að gilda jafnt um dýralyf og mannalyf þá held ég að eftirlitið með slíkri lyfjasölu til dýra ætti ekki að vera á hendi landlæknis heldur á hendi yfirdýralæknis því landlæknir hefur hvorki aðstæður né möguleika til þess að meta slíka lyfjagjöf í tilfellum minna sjúklinga, ef ég má svo að orði komast.
    Í 42. gr. í XV. kafla er fjallað um lyfsölusjóð. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í þann kafla. Mér finnst hann vera óþarfur og úreltur á þeim tímum sem við lifum í dag og mætti því mín vegna falla algjörlega niður.
    Að lokum, herra forseti, þar sem ég get ekki farið úr stólnum án þess að nefna aðeins það sem almennt er talað um dýralyf þá finnast mér þær breytingar sem ætlunin er að gera vera til bóta en hef þær einar athugasemdir við það að það gætu verið tilfelli sem varða dýr og dýralyf að svipaðar undanþágur mætti gera og fjallar um 28. gr. X. kafla um lyfjaútibú og ég bið hv. nefnd að skoða það í meðferð sinni á frv.