Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 17:21:45 (7293)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er að mínu mati ákaflega varasamt frumvarp. Og sú er von mín að sú nefnd sem fær það til meðhöndlunar hugsi sinn gang vel og vandlega áður en það kemur óbreytt aftur inn í þingið.
    Í upphafi frumvarpsins, þ.e. í 1. gr. I. kafla, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Markmið laga þessara er að tryggja um land allt góða lyfjaþjónustu, m.a. í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og nægilegt framboð lyfja á sem hagstæðustu verði.``
    Að mínu viti er þetta frumvarp ekki til þess fallið að framfylgja þessum markmiðum, því að það gengur miklu lengra en lög um lyfjasölu gera víðs vegar um Evrópu. Samkvæmt þessu frv. er einfaldlega gert ráð fyrir að smásala lyfja verði gefin frjáls. Smásala lyfja er hvergi frjáls í Evrópu. Víðast hvar eru ákvæði um fólksfjölda að baki hverri lyfjabúð, fjarlægð milli þeirra, sama verð innan sama ríkis o.s.frv. Stórmörkuðum er hvergi heimilt að reka apótek nema á Englandi, en enska tryggingakerfið ræður þó fjölda þeirra og staðsetningu í raun. Í Vestur-Þýskalandi er frelsi einna mest til þess að setja upp apótek, en eignarhald er þó eins og alls staðar nema í Englandi bundið við lyfjafræðing. Einn lyfjafræðing, eitt apótek, fagleg og fjárhagsleg ábyrgð, þetta er ekki aðgreint. Apótekin í Vestur-Þýskalandi eru mörg og smá og það veldur því að þau þurfa að fá lyf send frá heildsölum minnst fjórum sinnum á dag. Þó er lyfjaneysla Vestur-Þjóðverja tvöföld á við Íslendinga, lyfjaverð það hæsta í Evrópu og kostnaður þýsku trygginganna í samræmi við það.
    Ef við lítum til Grikklands þá voru til skamms tíma í gildi reglur sem heimiluðu öllum lyfjafræðingum þar í landi að setja á stofn apótek. Afleiðingarnar urðu þær að apótekunum fjölgaði á 25 árum úr 1.400 í 7.500. Þetta olli miklum vandræðum í lyfjasölumálum Grikkja og nú hafa þeir sett lög þar sem eru ákvæði um lágmarksíbúafjölda að baki hverju apóteki og einnig reglur um fjarlægð á milli þeirra. Og vegna þessarar stöðu fékk Grikkland eitt Evrópubandalagslanda aðlögunarfrest til ársins 1997 hvað varðar heimildir lyfjafræðinga frá öðrum EB-löndum til að setja upp apótek á Grikklandi.
    Á Íslandi er hins vegar verið að gera allt annað. Þar er nú verið að gera ráð fyrir að upp skuli tekið einmitt það sama lyfsölufyrirkomulag sem kom Grikkjum í svo mikinn bobba að þeir hafa nú aflagt það. Ef af þessum breytingum yrði má velta því fyrir sér hver gæti orðið staða Íslendinga í lyfsölumálum að loknum EES-samningum. En samkvæmt þeim drögum að frv. um lyfsölumál sem kynnt hafa verið yrði íslenska dreifingarkerfið hvað varðar stofnun apóteka það frjálsasta í allri Evrópu og opnara öllum lyfjafræðingum innan EES-svæðisins en annars staðar þekkist. Öll vitum við að í Bandaríkjum Norður-Ameríku er smásala lyfja frjáls. En kostnaður hins opinbera þar í landi er orðinn svo óheyrilegur að bandarísk yfirvöld líta norrænt fyrirkomulag lyfsölu öfundaraugum. Þetta vita lyfjafræðingar og þessar upplýsingar hef ég frá einum þeirra lyfjafræðinga sem kunnastur er þessum málum.
    Það er svo einkennilegt að þessi ríkisstjórn virðist hafa mestan áhuga á því að breyta því sem hefur verið í lagi. Það er alveg dæmalaust að horfa hér upp á hvern málaflokkinn á fætur öðrum tættan í sundur, einmitt þá málaflokka sem þjóðarsátt var um, heilbrigðiskerfið, skólakerfið. Og maður skilur ekki hvers vegna menn láta svona. Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í maí 1991 samþykkti ríkisstjórnin að reynt yrði að stemma stigu við síhækkandi lyfjakostnaði. Í framhaldi þessa skipaði heilbr.- og trmrh., Sighvatur Björgvinsson, starfshóp og fól honum að vinna tillögur um lækkun lyfjakostnaðar strax á árinu 1991. Markmiðið með vinnu starfshópsins var að auka kostnaðarvitund lækna og almennings á lyfjum og jafnframt að breyttu neyslumynstri almennings á þeim.`` --- Hæstv. forseti, mér þætti nú vænt um ef hæstv. ráðherra mætti vera að að hlýða á mál mitt. ( Heilbrrh.: Ég hef ekki vikið úr þessum sal síðan umræðan hófst.) Jæja, ég sá ekki betur en ráðherrann væri að ræða við formann þingflokks Sjálfstfl. ( Heilbrrh.: Ég sagði eitt orð við hann.)
    Nú vitum við það að eftir þann hamagang sem á undan er genginn í sjúkrahúskerfi Reykjavíkurborgar þá stæra menn sig af því að hafa náð niður kostnaði um 540 millj. Hvernig hefur svo sá sparnaður sýnt sig? Lyfjakostnaður jókst um 180 millj. og um 300 millj. fóru í hagræðingu. Sparnaðurinn er sem sé enginn. En menn eru hér að tala um að vinna að breyttu neyslumynstri almennings á þeim, þ.e. á lyfjum. Hvernig hugsa menn þetta?
    Það er auðvitað alveg ljóst að verði þetta frumvarp að lögum þá spretta upp út um allar grundir lyfjaverslanir. Það verður samkvæmt þessu frumvarpi, man ég nú ekki hvaða grein, leyft að auglýsa lyf sem

seld eru án lyfseðils. Hingað til hefur það verið samkomulag með þjóðinni að lyf auglýsa menn ekki, ekki í nokkru siðuðu landi. Og halda menn nú að þetta verði breytt notkun til bóta? Hafa menn hugsað út í það að unglingar sem eru að gutla við verkjalyf eins og panódíl og magnyl og annað slíkt, sem með skynsamlegri notkun er svo sem hættulítið, og blanda þessu saman við áfengi t.d., geta nú farið í hvaða búð sem er og keypt þetta. Eru menn virkilega ekkert hræddir við þetta? Eru menn virkilega ekki hræddir við þetta?
    En ef við lítum á hvort það verði betri þjónusta við sjúklinga þá vitum við öll að apótek eða lyfjaverslanir úti á landsbyggðinni hafa átt í erfiðleikum vegna þess einfaldlega að sem betur fer ber lyfjasalan ekki uppi verslanirnar. Og sú er auðvitað skýringin á því að vel flest ef ekki öll apótek selja alls kyns aðra vöru, svo sem snyrtivörur og annað slíkt, vegna þess að að öðrum kosti væri ekki hægt að reka verslunina. Hvernig halda menn nú að lyfsöluleyfi dreifist á landið þegar hægt er að fara að reka lyfjaverslanir hvar sem er? Vitaskuld koma þær upp hér á þéttbýlissvæðunum. Það er ekkert fýsilegur kostur að fjölga lyfjaverslunum úti á landsbyggðinni. Ég held að þetta verði menn að hugsa mjög vandlega um áður en lengra er haldið.
    Um þetta mál hefur margt skynsamlegt verið skrifað og ég er hér með í höndunum ritgerð frá Háskóla Íslands, viðskipta- og hagfræðideild, eftir Hrannar Erlingsson. Hann talar um að hann sé mikill stuðningsmaður samkeppni í verslun. En hver eru lokorð hans eftir mjög áhugaverða og góða skýrslu, þar sem hann setur sér að kanna hvort við viljum, eins og hann segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Viljum við fá frjálsa samkeppni eins og á matvörumarkaðnum, ríkisrekstur eða er núverandi fyrirkomulag kannski það besta?`` Hann er að leita að því hvort með aukinni samkeppni verði náð betri þjónustu og lækkun lyfja. Og ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, ef því verður ekki mótmælt, að lesa hér lokaorð hans. Og hann segir:
    ,,Markmiðið með þessari ritsmíð var að hún yrði innlegg í umræðuna um hvernig fyrirkomulag við viljum hafa á smásölu lyfja hérlendis. Þar sem flestar hugmyndir, sem fram hafa komið undanfarið, hafa beinst að auknu frjálsræði í lyfsölunni þá einbeitti ég mér að þeim þáttum, kostum og göllum. Niðurstaðan varð ótvíræð: Aukið frelsi í smásölu lyfja er við núverandi aðstæður afar óæskileg. Ástæður þess eru fjölmargar en nefna má þætti eins og aukinn kostnað, hættu á aukinni neyslu, mismunun milli landsbyggðarfólks og höfuðborgarbúa og svo mætti lengi telja.
    Það verður að viðurkennast að sem fylgismanni frjálsrar samkeppni á flestum sviðum þá olli þessi niðurstaða mér talsverðum vonbrigðum. Vonandi er þetta þó undantekningin sem sannar regluna. Útkoma af þessu tagi,`` segir Hrannar Erlingsson, ,,er einmitt góð áminning um að hversu góðar sem hagfræðikenningar eru og hversu vel sem þær reynast í raun þá eru þær ekki algildar. Hvert dæmi þarf að skoða fyrir sig og þó kenning eigi vel við á einu sviði þá er það ekki sönnun fyrir því að hún sé viðeigandi á öðrum stað. Sá tími kann að koma að aðstæður verði á þann veg að frjáls samkeppni í lyfjadreifingu verði góður kostur. Að því er þó ekki komið í dag eða nánustu framtíð.
    Þrátt fyrir að frjáls samkeppni eigi ekki við í lyfjadreifingunni er ekki þar með sagt að allt sem dreifingunni viðkemur þurfi að vera óbreytt um aldur og ævi. Hægt er að þróa núverandi kerfi og bæta það á ýmsan hátt. Það er vinna sem aldrei tekur endi því stanslaus þróun á sér stað á þjóðfélagsgerðinni. Sú þróun hefur alls staðar áhrif og ekki síður á besta fyrirkomulag smásölulyfja en annars staðar.``
    Þetta voru lokaorð Hrannars Erlingssonar í ritgerð sem heitir Smásala lyfja á Íslandi, og er gefin út á vegum Háskóla Íslands, viðskipta- og hagfræðideild.
    Menn hafa skrifað fleira skynsamlegt um þetta mál. Í Morgunblaðinu 17. apríl sl. er grein eftir Erlend Jónsson, sem er dósent í rökfræði og aðferðafræði vísinda við Háskóla Íslands. Og ég held að það sé hollt að vitna aðeins í það sem hann segir í þessari grein, með leyfi hæstv. forseta. En hann segir:
    ,,Nýtt frumvarp til lyfjalaga, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, er reist á þessri rökvillu,`` segir hann, hann er búinn að vitna aðeins í Ágúst H. Bjarnason um rökvillur. ,,Sú ályktun er dregin, að þar sem aukin samkeppni og frelsi hafi á mörgum sviðum leitt til lægra verðlags og betri þjónustu, þá hljóti aukin samkeppni og frelsi að leiða til lægra verðlags og betri þjónustu á smásölu lyfja.
    Rökstuðningur við frumvarpið byggist einnig á ýmsum öðrum hugsanavillum. Þannig hefur lyfjasölu verið líkt við sölu á almennri matvöru og þá sérstaklega mjólkursölu: hér er komin rökskekkjan óleyfileg samlíking, sem Ágúst segir`` --- þ.e. Ágúst H. Bjarnason --- ,,í því fólgna, ,,að menn fara úr einu í annað og dæma eitt eftir öðru án þess að fullvissa sig um hvort það sé eins, líkt eða svipað``. Þegar teknar eru ákvarðanir um jafnmikilvægt mál og fyrirkomulag á smásölu lyfja og umbylta á þrautreyndu kerfi, sem ekki aðeins við, heldur líka frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, hafa ekki enn séð ástæðu til að breyta í grundvallaratriðum, þarf að gæta ýtrustu varúðar og láta ekki einföldustu rökskekkjur glepja okkur sýn. Nauðsynlegt er að beita skynsemi.``
    Og Erlendur Jónsson segir á öðrum stað, með leyfi hæstv. forseta: ,,Sala lyfja er einnig frábrugðin annarri sölu að því leyti að hún á ekki að vera neysluhvetjandi. Það á ekki að vera markmið lyfsala að selja sem mest af lyfjum, að auka neysluna eða skapa þarfir fyrir ný lyf. Hans hlutverk er eingöngu að sjá til þess að afgreiðsla lyfja sé örugg og lúti ákveðnum faglegum kröfum, og veita viðskiptavinum sem besta þjónustu.``
    Ég held að hér sé mælt af mikilli skynsemi og menn hefðu betur hugsað þetta mál áður en af stað

var farið.
    Í Morgunblaðinu í morgun, 20. apríl, er einnig grein sem Ingólfur J. Petersen, lyfsali í Mosfellsapóteki, skrifar. Og þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta: ,,Apótekarafélag Íslands hefur í umræðunni um lyfjadreifinguna bent á, að samfara frelsi til að opna apótek fylgi annars vegar fækkun apóteka í dreifbýli, sem leiðir af sér að draga mun þar úr lyfjaþjónustu. Hins vegar muni apótekum fjölga í þéttbýli. Það kalli á mikla fjárfestingu, sem lyfjasölunni mun ætlað að standa undir, en hætt er við að einingarnar verði smáar og þar með síður hæfar til að veita þá þjónustu sem til er ætlast. Í því sambandi má t.d. benda á, að 3 lyfjafræðingar hafa fest sér húsnæði í einni og sömu verslunarmiðstöðinni í Reykjavík! Engin slík dæmi eru kunn úr dreifbýli.`` --- En hér mun vera átt við húsnæði í Kringlunni. Og þannig er ég hrædd um, hæstv. forseti, að fari fyrir þessu. Menn setja slíkar verslanir upp hér á þéttbýlissvæðinu en sýnu ófýsilegra er að setja slíkar verslanir upp úti á landsbyggðinni.
    Þess má t.d. geta að það tók Dani tíu ár, Schlüter-stjórnina, að velta því fyrir sér hvort Danir ættu að taka lyfsölumálin upp að nýju og gefa þau frjáls. Og eftir tíu ár endaði sú umræða með því að það var ákveðið að breyta ekki neinu. Þannig að menn hafa velt þessu fyrir sér víða í löndunum í kringum okkur og komist að þeirri niðurstöðu að hér yrði að fara mjög varlega.
    Í tíð hæstv. fyrrv. heilbrrh. Guðmundar Bjarnasonar var gerð mjög heiðvirð tilraun til þess að lækka álagningu í heildsölu og smásölu lyfja haustið 1990 og þar var farið af stað af nokkurri hófsemi og með allgóðum árangri. Það er einu sinni svo að lyf eru ekki eins og önnur vara. Ég þekki ekki það fólk sem kaupir lyf án þess að þurfa á þeim að halda að mati lækna. Það eru auðvitað undantekningar frá því ef fólk er háð lyfjum af öðrum ástæðum, en slíkt heyrir auðvitað til undantekninga. Ég veit ekki hvaða fólk það er sem á að flykkjast í lyfjaverslanir samkvæmt auglýsingum. Við skulum hugsa okkur að fjölskylda sé með veikt barn. Læknir kemur og gefur út lyfjaávísun. Dettur nokkrum heilvita manni í hug að foreldrarnir fari að hlaupa á milli lyfjaverslana til þess að reyna að finna lægsta verðið á umræddu lyfi? Ég get ekki almennilega séð þessa stöðu fyrir mér. Ég held að umræddir foreldrar flýttu sér í næstu lyfjaverslun og næðu í lyfið til þess að barninu batnaði, eða hver sem í hlut ætti. Og við höfum ekki farið með lyf eins og aðrar vörur og við viljum ekki gera það og ég vil ekki gera það. Ég vil ekki að lyfjaverslanir séu í samkeppni.
    Síðan tala menn um að til þess að létta þeim sem minnst hafa lyfjakaup verði lyf afgreidd frá heilsugæslustöðvum. Þá finnst mér málið vera komið í kross því að þar með er ríkið farið að keppa við einkaframtakið, ef ég skil þetta mál rétt.
    Hæstv. forseti. Um þetta mál mætti ótal margt segja. Við erum enn að daðra við EES og hér er í athugasemdum frumvarpsins talin upp röð af alls kyns tilskipunum Efnahagsbandalagsins, eins og vænta má. Og hér segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Gert er ráð fyrir að þau ákvæði tilskipana EB um lyfjamál, sem ekki er minnst á í frumvarpinu, verði felld inn í reglugerðir, sem settar verða í kjölfar samþykktar frumvarpsins.`` Ég geri ráð fyrir að þetta hljóti að vera byggt á því að af EES-samningum verði, sem ýmsum sýnist að sé vafasamara nú en nokkru sinni fyrr. Þannig að þess vegna held ég að hefði mátt bíða með að breyta þessu frumvarpi þar til sýnt yrði hvort af EES-samningum verður.
    Ég hef einnig áhyggjur af því að lyfjaeftirlit verði mun minna en verið hefur. Almar Grímsson lyfjafræðingur, sem um langt skeið vann í heilbrrn., vann merkilegt starf við að kanna lyfjanotkun Íslendinga og stóð fyrir mörgum umbótum sem gerðar voru varðandi þau mál. Ég get ekki séð að það verði sams konar eftirlit með útgáfu lyfja, hvorki eftirlitið með þeim lyfjum sem læknar ávísa né lyfjanotkun almennt, eftir að þetta frumvarp yrði að lögum. En ég vil ítreka að ég óttast ekki minna misnotkun lyfja, sem verði mun auðveldari eftir að hægt er að ganga að ýmsum lyfjum á mörgum stöðum og án þess að kunnáttumenn afgreiði þau, og hugsa þá sérstaklega til unglinganna okkar. Ég held að þeir muni eiga mun auðveldara með að ná sér í lyf. Og ég er sannfærð um að þetta frumvarp muni ekki stuðla að lækkun lyfjaverðs. Það held ég að sé mesti misskilningur og menn ættu ekki að treysta því.
    Í stuttu máli sé ég ekki ástæðuna fyrir þessu frumvarpi. Þó hefur óneitanlega verið þannig um þetta talað að menn sjái ofsjónum yfir gróða einstakra apótekara. Það má vel vera að þeir hafi hinar ágætustu tekjur. Eftir því sem mér hefur nú sýnst er obbinn af þeirra tekjum af allt öðru heldur en lyfjum sem betur fer, vegna þess að apótekin bæta sér einfaldlega gott heilsufar landsmanna með því að selja alls kyns aðra hluti og skemmtilegri heldur en lyf svo sem snyrtivörur, sokka og nærföt og ýmislegt annað sem til sölu er í apótekum. ( Gripið fram í: Skemmtilegt?) Og það er mun skemmtilegra heldur en lyf, óneitanlega. Sem betur fer er heilsufar landsmanna ekki verra en það að það er ekki augljós gróðavegur að selja eingöngu lyf og er það vel.
    Ég held að þarna hafi menn látið glepjast af klisjum sem eru heldur leiðigjarnar og ekki kannski til þess fallnar að umbreyta kerfi sem hefur gengið allsæmilega þangað til núv. hæstv. heilbrrh. kom til sögunnar. Það blasir við hverjum manni að það verður æ erfiðara fyrir fólkið í landinu að kaupa lyf og það liggur fyrir og ég hef umsagnir lyfjafræðinga fyrir því að fólk sem fær lækni á heimili sitt og ávísun á lyf það lætur jafnvel lítil börn bíða um stund, vill sjá hvort málið lítur ekki betur út á morgun, áður en menn sækja lyfið, vegna þess að þau kosta svo mikla peninga. Og heimilislæknar hér í Reykjavík halda því fram að þeir í stórum stíl taki ekki gjald af sjúklingum sínum vegna þess að þeir hafi hreinlega ekki brjóst í sér til þess, og horfa að sjálfsögðu fram á --- það gleður kannski hæstv. heilbrrh. --- verulegt prívat tekjutap.

Vegna þess að mönnum er auðvitað ekki alveg sama um sjúklinga sína sem betur fer. Og ég veit að dæmi eru til þess á sjúkrahúsum bæjarins að menn biðja starfsfólk að geyma tékka til einhvers ákveðins tíma, jafnvel vísareikninga og guð má vita hvað, af því fólk á ekki fyrir heilbrigðisþjónustu sem það þarfnast. Og hafi nú Alþfl. komið inn í ríkisstjórn til þess að svo sé þá er orðið erfitt að sjá tilganginn með þeim góða flokki. Og yrði sennilega undarlegur svipur á manni sem einu sinni barðist fyrir allt öðru, en hann hét Haraldur Guðmundsson. Ég býst ekki við að hann hafi gert ráð fyrir því að það yrði Alþfl. sem rifi niður lög um almannatryggingar og kæmi á þeim ójöfnuði sem nú er óðum að taka öll ráð í okkar þjóðfélagi. Það er sorglegt til þess að vita og þarf álíka rökstuðning og dæmalausar yfirlýsingar manna hér í dag í ákveðinni atkvæðagreiðslu til að réttlæta gerðir sínar. Og er ég hrædd um að þar eigi við það sem Erlendur Jónsson dósent segir um rökvillur.
    Hæstv. forseti. Ég gæti talað langt mál um þetta frumvarp. Ég á því miður ekki sæti í hv. heilbr.- og trn. En ég treysti því að þar sé það kunnáttufólk til staðar sem fari vandlega ofan í þetta frumvarp og gæti þess að hér séu ekki stigin of stór skref. Ég held að menn ættu að hugsa sig um áður en þeir samþykkja 17. gr. frv., sem hefst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: ,,Heimilt er að kynna og auglýsa lausasölulyf fyrir almenning.``
    Ég vildi spyrja, hæstv. forseti: Til hvers þarf að auglýsa lyf? Handa hverjum? ( IP: Til að selja þau.) Ég mundi persónulega aldrei lesa lyfjaauglýsingar nema ég hefði grun um að ég þarfnaðist einhverra lyfja. Meðan ég er heilbrigð eða held að ég sé það þá hef ég ekki áhuga á lyfjum fremur en aðrir landsmenn. Þess vegna er auðvitað auglýsing á lyfjum fullkomlega siðlaust athæfi. Og þó ekki væri nú annað þá bið ég hv. heilbr.- og trn. að hleypa þeim ósköpum ekki af stað að menn berjist hér um á markaðnum við að troða lyfjum upp á fólk. Þvílíkt og annað eins. Flest er nú hægt að nota sér til að græða peninga.
    En það má vel vera að þetta þyki Alþfl. aukin samkeppni í lyfjaheildsölu og smásölu, og hún komi til með að skila sér í lægra vöruverði, en kannski meiri sölu. Það gæti verið að aukin sala hjálpaði upp á lægra lyfjaverð og uppi stæðu apótekararnir og græddu sem aldrei.
    Ég held að menn ættu að hugsa þessi mál í heild sinni og skoða frv. afar vel áður en það verður gert að lögum, sem ég vona að gerist ekki á þessu þingi. Ég hef lokið máli mínu, forseti.