Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 18:32:33 (7300)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði áðan í ræðu sinni að hann óttaðist að lyfjabúðir verði of margar vegna þess hversu opnar heimildir væru eða skyldar til að veita lyfsöluleyfi í 21. gr. Ég skal ekkert draga úr þeirri skoðun hv. þm. að að því leyti muni þetta ekki horfa til sparnaðar en ég hef samt sem áður frekar áhyggjur af þveröfugu, þ.e. að lyfjabúðir verði of fáar á afmörkuðum svæðum. Það er vegna ákvæðisins sem er í 22. gr., niðurlagi hennar, að starfandi læknir, tannlæknir og dýralæknir má ekki vera eigandi, hluthafi eða starfsmaður lyfjabúðar. Að vísu virðist vera að þetta ákvæði um dýralæknana sé marklaust því vegna ákvæða í 30. gr., eins og segir í athugasemdum með þeirri grein, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Reglur um heimild dýralækna til sölu dýralyfja munu breytast í þá veru að allir dýralæknar munu framvegis geta selt dýralyf á allt að hámarksverði sem ákveðið er af lyfjagreiðslunefnd. Hingað til hefur þessi heimild verið bundin við héraðsdýralækna. Er þetta nýmæli til verulegra þæginda fyrir þá sem njóta þjónustu dýralækna.`` Skal ég ekki draga úr því að það muni hafa þau áhrif en þarna sýnist mér að ekki sé gert ráð fyrir að það verði að neinu haft ákvæði 22. gr. um að dýralæknar megi ekki vera eigandi, hluthafi eða starfsmaður lyfjabúðar, þ.e. þeirra lyfjabirgða sem hann þarf á að halda og þeir sem njóta þjónustu hans á viðkomandi svæði. En þetta virðist horfa öðruvísi við hvað varðar læknana. Þá kem ég að því sem ég sagði að væru mínar áhyggjur fyrst og fremst af þessu frv. Í fámennum afskekktum læknishéruðum hefur það verið þannig og er þannig að heilsugæslulæknirinn rekur það apótek sem rekið er á viðkomandi svæði. Hann hefur þannig vinnu við það til viðbótar við læknisstörfin sem vegna fámennis í héraði eru ákaflega takmörkuð.
    Ég hef heyrt að eftir að þetta frv. kom fram þá hefur vaknað sá ótti að torvelt verði að fá lækni til starfa ef hann verður sviptur þessum hluta starfsins í þessum héruðum þar sem að sjálfsögðu verða tekjurnar svo miklu lægri en þar sem fjölmennari héruð er um að ræða.
    Ég vil því spyrja af hverju er verið að leggja niður skipulag sem vel hefur reynst í þessum héruðum, þ.e. þetta hefur tryggt íbúunum bæði góða læknisþjónustu og góða lyfjaþjónustu en þarna er hvoru tveggja stefnt í voða. Varla er hægt að skylda neinn til að reka lyfjaverslun á einhverju svæði þar sem hætt er við að notkun lyfja sé það lítil að erfitt sé að standa undir sjálfstæðum rekstri ef það er ekki samhliða öðru starfi. Ég hef því heyrt það að þar sem svona eru aðstæður þá óttast menn að þetta muni valda uppnámi bæði í læknis- og lyfjaþjónustu.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði að þetta frv. væri ekki í eðli sínu pólitískt mál en ef að lögum verður frv., sem hefur þau áhrif að það mismunar fólkinu í landinu og stefnir í hættu þjónustu á þessum svæðum þá er það að mínu mati mjög pólitískt mál. Ég vil því biðja þá nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar að taka þetta atriði til ítarlegrar athugunar þannig að með lagasetningu á Alþingi verði ekki stefnt í hættu þessari lífsnauðsynlegu þjónustu fyrir íbúa á þeim svæðum sem erfiðasta hafa aðstöðu að þessu leyti ef það skipulag riðlast sem við búum nú við.
    Ég vænti þess að það hafi ekki verið ætlun hæstv. heilbrrh. að þetta hefði þau áhrif sem ég hef nefnt að ég óttast að það geri og ég hef ekki trúað öðru en hann yrði þakklátur fyrir það að nefndin leiti þeirra úrræða sem geti á þessu sviði tryggt farsæla lausn. Hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða mörg svæði þar sem víða er sá fjöldi að baki lækni í hverju heilsugæsluumdæmi að það verður að vonast til þess að hægt sé að halda uppi viðunandi lyfjaþjónustu eftir þessu skipulagi.
    En ég vil endurtaka það að heilbr.- og trn. taki þetta mál til ítarlegrar athugunar. Ég vil trúa að það stafi af athugunarleysi en alls ekki af ásetningi að valda þarna erfiðleikum eða miklum kostnaðarauka, annað hvort með því að fara að greiða lækninum hærri þóknun fyrir tekjumissinn eða fyrir íbúana að þurfa

að sækja læknisþjónustu og lyf um miklu lengri og torfæran veg á stundum.