Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 19:49:00 (7303)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og ég tók fram held ég að það skipti afskaplega litlu máli um neyslu landsmanna á lyfsöluskyldum lyfjum hvort það er eitt, tvö eða þrjú apótek í Glæsibæ vegna þess að það eru læknarnir, sem skrifa út lyfin, sem ráða að verulegu leyti neyslu þeirra. Ég hef enga ástæðu til þess að óttast að það verði eitt, tvö eða þrjú --- hvað þá heldur fleiri --- apótek í Glæsibæ, og ég er alveg sannfærður um að ef einhverjir væru svo vitlausir að ætla að fara að stofna tvö eða þrjú eða fjögur apótek í Glæsibæ yrði ekki langt að bíða þangað til aðeins eitt stæði eftir. Það er eðli frjálsrar samkeppni, og hvaða apótek stæði þá eftir? Það apótek sem byði neytendum bestu þjónustuna og bestu kjörin.