Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 20:00:17 (7312)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Frjáls samkeppni, hún á að skila lækkuninni, sagði hæstv. ráðherra áðan. Og lyfjaverð skal lækka, það standi ekki í frumvarpinu. Það er alveg rétt, það er ekki hægt að láta slíkt standa í frumvarpi.
    En það er hægt með svokölluðum bestukaupalista og það hefur hæstv. ráðherra oft haft á orði í umræðum um heilbrigðismál. Þannig að ég tel að það hefði alveg verið hægt að ná lækkun fram með ákveðnum aðgerðum innan lyfjalaganna, eins og þau eru í dag, og að frjálsa samkeppnin muni ekki skila lækkun. Enda er mjög tekið vægt til orða í sambandi við það í frumvarpinu að það sé hugsanlegt að lyf lækki og fleira í þeim dúr.