Eiturefni og hættuleg efni

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 20:31:30 (7315)

     Frsm. heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 52 frá 1988 um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum sem hv. heilbr.- og trn. flytur. Frv. þetta er flutt að ósk hæstv. umhvrh. svo hægt verði að framfylgja ákvæðum Vínarsamningsins frá 22. mars 1985 um verndun ósonlagsins og Montreal-bókunarinnar við hann um efni sem valda rýrnun ósonlagsins, sem gerð var 16. sept. 1987.
    Ísland gerðist aðili að Vínarsamningnum og Montreal-bókuninni við hann árið 1989. Aðildarþjóðir Montreal-bókunarinar skuldbinda sig samkvæmt fyrstu ákvæðum hennar til að draga úr notkun tiltekinna klórflúorkolefna um 20% fyrir árið 1993 og um 50% fyrir árið 1998, og er þá miðað við notkun eins og hún var árið 1986. Jafnframt skuldbinda aðildarríkin sig til að tryggja að notkun halóna verði ekki meiri heima fyrir árið 1992 en hún var árið 1986.
    Í ljósi nýrrar vitneskju um ástand ósonlagsins var ákveðið á fundum aðildarríkja samningsins í Lundúnum í júní 1990 og í Kaupmannahöfn í nóvember 1992 að herða verulega ákvæði Montreal-bókunarinnar. Á fundinum í London samþykktu aðildarríkin m.a. að minnka notkun klórflúorkolefna um 50% fyrir árið 1995 og 85% fyrir árið 1997 og hætta notkun þeirra alfarið fyrir árið 2000. Jafnframt var ákveðið að minnka notkun halóna um 50% fyrir árið 1995 miðað við notkun ársins 1986 og hætta henni alfarið fyrir árið 2000.
    Ísland hefur fylgt áætlun þeirra þjóða sem lengst hafa gengið í að draga úr notkun ósoneyðandi efna og í samræmi við það er þegar búið að uppfylla þær skuldbindingar að mestu leyti sem felast í þessum hertu kröfum sem samþykktar voru í London árið 1990. Sem dæmi má nefna að strax árið 1991 hafði notkun klórflúorkolefna hér á landi minnkað um 50% og notkun halóna um 68% miðað við notkun ársins 1986. Nú liggur fyrir á hæstv. Alþingi till. til þál. um heimild fyrir ríkisstjórn Íslands til að staðfesta þær breytingar við Montreal-bókunina sem gerðar voru í London 1990 og er sú tillaga á dagskrá í dag til síðari umræðu.
    Breyting á Montreal-bókuninni, sem gerð var í Kaupmannahöfn í nóvember 1992, felur m.a. í sér strangari tímamörk en áður. Samkvæmt breytingunni er banninu við notkun tiltekinna klórflúorkolefna flýtt um fjögur ár og skal henni alfarið hætt fyrir 1. jan. 1996. Jafnframt skal notkunin hafa dregist saman um 75% fyrir 1. jan. 1994 miðað við notkunina 1986. Banninu við notkun halóna er flýtt um fimm ár og verður notkun ekki heimil eftir 1. jan. 1994. Tekið skal fram að þetta bann við notkun nær einungis til nýrra efna en notkun endurunninna og endurnýttra efna verður heimil áfram svo og tiltekin bráðanotkun.
    Eins og ég sagði áðan hafa Íslendingar verið í hópi þeirra þjóða sem mesta áherslu hafa lagt á að draga úr notkun ósoneyðandi efna. Á alþjóðlegum vettvangi hefur því m.a. verið lýst yfir að stjórnvöld á Íslandi ætli að fylgja svipaðri stefnu í takmörkun á notkun ósoneyðandi efna og hin Norðurlöndin. Frv. þetta er flutt til að hægt verði að uppfylla þær skuldbindingar sem nú felast í Montreal-bókuninni eftir breytingarnar sem gerðar voru á henni í Kaupmannahöfn í nóvember sl. Setja þarf nýjar reglur um notkun ósoneyðandi efna hér á landi, um notkun, sölu og innflutning ósoneyðandi efna, en til þess þarf lagabreytingu.
    Framkvæmd Vínarsamningsins og Montreal-bókunarinnar eru á verksviði umhvrn. og því er eðlilegt að umhvrh. setji slíkar reglur um notkun ósoneyðandi efna. Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96 frá 1969, ásamt síðari breytingum, fer umhvrn. með mál sem varða varnir gegn mengun á landi, í lofti og á legi. Þrátt fyrir það hefur umhvrh. ekki ótvíræða heimild í gildandi lögum til að setja nauðsynlegar reglur um notkun ósoneyðandi efna.
    Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. Alþingis hefur fjallað um frumvarpið á þremur fundum. Á fundi hjá nefndinni komu Jón Gunnar Ottósson skrifstofustjóri og Sigurbjörg Sæmundsdóttir deildarstjóri frá umhvrn., Óskar Maríusson frá VSÍ og Ágúst Elíasson og Óskar Gunnarsson frá samtökum fiskvinnslustöðva. Nefndin kynnti sér m.a. drög að þeirri reglugerð um varnir gegn mengun af völdum klórflúorkolefna og halóna sem fyrirhugað er að setja verði frumvarpið að lögum. Fram kom hjá fulltrúum ráðuneytisins að reglugerðardrögin voru send hagsmunaaðilum til umsagnar sl. vor og að búið væri að taka tillit til þeirra athugasemda sem borist höfðu.
    Eftir að hafa gengið úr skugga um að góð sátt væri um ákvæði reglugerðarinnar og að ekki væri vandkvæðum bundið að uppfylla þær kröfur sem þeim fylgja varð nefndin við tilmælum hæstv. umhvrh. um að flytja þetta frumvarp.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. en tel óþarft að vísa málinu til nefndar þar sem það er flutt af hv. heilbr.- og trn.