Eiturefni og hættuleg efni

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 20:39:04 (7317)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. formanni heilbr.- og trn. þá er þetta frv. flutt að beiðni umhvrh. enda heyra þessi mál undir umhvrn. og umhvrh. Ég veit að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir ber mjög hag frystiiðnaðarins fyrir brjósti. Í máli hennar gætir hins vegar töluverðs misskilnings vegna þess að þau efni sem hún er að tala um hér eru að hverfa, verða einfaldlega ekki fáanleg, þau verða ekki til, þau verða ekki á markaði. Okkur er nauðugur kostur að hætta að nota þessi efni, og auðvitað viljum við ekki verða til þess að auka eða hraða eyðingu ósonlagsins. Ég veit að hv. þm. vill það ekki. Annaðhvort gætir misskilnings eða einkennilegs tvískinnungs í málflutningi hennar og hún er þá í rauninni bara að flytja sitt mál til þess að tefja málið.
    En staðreyndir þessa máls eru ákaflega einfaldar. Það er verið að hætta notkun ósoneyðandi efna alls staðar þar sem það er hægt, taka þau af markaði og setja í rauninni á svartan lista. Við höfum lýst því yfir að við ætlum að vera samstiga Norðurlöndunum í þeim efnum. Þar hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila. Og ég hygg að um það sé enginn ágreiningur hér að við eigum að ganga langt í þessum efnum, eins langt og tæknilega er mögulegt. Það eru til önnur efni og það eru sífellt að koma fram ný efni sem ekki hafa þessi háskalegu áhrif á ósonlagið og ég verð að segja að mér kemur þessi málflutningur þingmannsins ákaflega mikið á óvart enda þótt ég viti að hún ber hag hraðfrystiiðnaðarins mjög fyrir brjósti. Frumvarpið er einfaldlega flutt, virðulegi forseti, til þess að taka af tvímæli um útgáfu reglugerða þannig að reglugerðarútgáfa eigi ótvíræða stoð í lögum. Um það hélt ég að væri enginn ágreiningur og satt að segja kemur mér málflutningur þessa fulltrúa Framsfl. ákaflega mikið á óvart.