Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 21:52:41 (7332)

     Geir H. Haarde (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get ekki látið ómótmælt fullyrðingum sem fram komu í máli hv. 9. þm. Reykv. og varðar frv. er ég flutti fyrir tveimur árum og snýr að málefnum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Hann kom með alveg nýja kenningu sem hafði aldrei heyrst í tengslum við það mál, þ.e. að frv. hefði verið flutt þannig að það gerði ráð fyrir því að atvinnuleysistryggingar lækkuðu til hinna atvinnulausu. Þetta er fjarstæðukenndur málflutningur og kom aldrei nokkurn tímann fram. Þingmaðurinn hélt því fram að af þessum ástæðum hefði Alþýðusambandið séð sig knúið til að leggjast gegn frv. Þetta er bara hrein og klár vitleysa. Þingmaðurinn hefur ekki kynnt sér umræður eða önnur gögn varðandi þetta mál hér fyrir tveimur árum. Ástæður Alþýðusambandsins voru allt aðrar og þær komu greinilega fram. Þeir vildu bara ekki gera þessa breytingu af prinsippástæðum vegna þess sem hv. þm. gat um að þeir töldu sig eiga þennan sjóð einir í kjölfar verkfallsins 1955. Það var ástæðan. Sem betur fer hafa orðið skoðanaskipti á þeim bæ alveg eins og hjá hv. þm. Svavari Gestssyni og hans skoðanabræðrum sem á sínum tíma lögðust gegn þessu máli en hafa skipt um skoðun og vilja nú að þessi sjálfsögðu mannréttindi, atvinnuleysistryggingar, nái ekki bara til þeirra sem eru í verkalýðsfélögum og ekki bara þeirra sem tóku þátt í verkfallinu 1955 heldur til annarra landsmanna og annarra launamanna.