Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 21:55:51 (7336)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég hlustaði áðan á ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar duttu mér í hug fjögur orð. Þvílík hræsni, þvílík yfirboð. Er hv. þm. búinn að gleyma því að hann og flokksfélagar hans hafa borið ábyrgð á því að ekki hefur verið samþykkt þrátt fyrir þingmeirihluta á Alþingi Íslendinga að veita þeim sem eru atvinnulausir en eru ekki meðlimir í stéttarfélögum rétt til atvinnuleysisbóta? Hv. þáv. heilbr.- og trmrh. Guðmundur Bjarnason lagði slíkt frv. fram í ríkisstjórn árið 1989. Þá var það hv. þm. Svavar Gestsson og flokksbræður hans sem beittu valdi sínu sem ráðherrar í ríkisstjórn til að segja nei þótt þingmeirihluti væri fyrir málinu. Er hann búinn að gleyma því, hv. þm., að það var formaður hans, Ólafur Ragnar Grímsson, sem tók sérstaklega fram árið 1990 og þó það væri verið að skattleggja alla vinnu launamanna í landinu til atvinnuleysistrygginga ættu þeir sem stæðu utan stéttarfélaga engan rétt.
    Ég vil taka það fram til þeirra sem e.t.v. hlusta á þetta mál að þeir atvinnuleysingjar sem eru nú án atvinnuleysisbóta og standa utan stéttarfélaga væru með fullan rétt til atvinnuleysisbóta ef þingflokkur Alþb. hefði ekki komið til sem hefur staðið gegn því í fjögur ár að þingmeirihlutinn fengi að koma til skjalanna. Að leyfa sér að ræða í þessu sambandi um það frumkvæði Alþb. að leggja fram á Alþingi vitlausasta frv. sem lagt hefur verið fram um margra ára skeið, frv. sem ber ekki meiri virðingu fyrir atvinnuleysingjum en svo að ef það væri samþykkt væru lög um atvinnuleysistryggingar óframkvæmanleg. Vísasta verkið til að tryggja að enginn Íslendingur fengi atvinnuleysisbætur væri að samþykkja frv. Alþb.