Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 22:25:21 (7341)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Með þessu frv. er verið að glíma við afleiðingar af einu stærsta vandamáli sem nú er í þjóðfélagi okkar, sívaxandi atvinnuleysi. Slíkt er lífsnauðsynleg nauðvörn þó að flestir munu sammála um að atvinnuleysisbætur draga aðeins úr einum þætti afleiðinga af atvinnuleysi því að svo margþættar eru þær afleiðingar.
    Vaxandi atvinnuleysi á sér að sjálfsögðu ýmsar orsakir. En tvímælalaust er ein þeirra sú trú sem hefur verið alið á af núv. hæstv. ríkisstjórn að það sé ávinningur fyrir þjóðfélagið að leggja niður sem allra flest óhagkvæm störf, sem svo eru nefnd, t.d. að leggja niður framleiðslu ef hægt er að flytja inn vöru á lægra verði. Þetta virðist því miður hafa tekist býsna vel síðustu missirin.
    En þá kemur spurningin: Hversu dýru verði er þetta keypt fyrir þjóðfélagið í heild ef allar hliðar þess eru skoðaðar? Hversu mikinn þátt á þessi stefna í því að þjóðartekjur hafa dregist saman? Hversu mikinn þátt á þessi stefna í viðskiptahalla þeim sem við eigum nú við að glíma og hversu mikinn þátt á þessi stefna í ört vaxandi atvinnuleysi?
    Þessu og mörgu fleira í þessu sambandi þarf að gera sér glögga grein fyrir því að öll hljótum við að vera sammála um að mikið má gefa fyrir það að hægt væri að breyta ástandinu þannig að sem allra minnst þyrfti að greiða af atvinnuleysisbótum, jafnvel þótt réttur til þeirra verði rýmkaður eins og það frv. sem hér er til umræðu kveður á um.
    Við framsóknarmenn styðjum þá breytingu og viljum því stuðla að framgangi þessa frv. Við teljum þó að ýmis atriði þess þurfi að skoða við meðferð málsins í nefnd og færa til betri vegar eins og kostur er. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að endurtaka það sem fyrri ræðumenn hafa nefnt en víkja aðeins að einu.
    Bændur voru í hópi þeirra sem bættust við greiðendur tryggingagjalds árið 1991 og við afgreiðslu þeirrar breytingar var því gefið fyrirheit á Alþingi um að fá þar réttindi á móti. Við lögfestingu þessa frv. munu þeir fá réttindi skv. 1. gr. þess ef þeir hætta alveg atvinnurekstri. En þrátt fyrir gífurlegan samdrátt í vinnu við landbúnað, sem nú blasir við, er ekki líklegt að þetta ákvæði nái til margra í fyrstu og vonandi sem fæstra. En vegna þessa vanda, sem blasir þar við, voru atvinnumálin tekin til meðferðar í búnaðarþingi í síðasta mánuði og gerð um þau ályktun. Vil ég lesa hér upphaf þeirrar ályktunar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Búnaðarþing vekur athygli á og lýsir áhyggjum sínum vegna ört vaxandi atvinnuleysis í landinu.
    Í því sambandi bendir þingið á þann gífurlega samdrátt sem orðið hefur í framleiðslu búvara, sérstaklega í sauðfjárframleiðslu, á árunum 1991 og 1992. Fullvirðisréttur, nú greiðslumark til sauðfjárframleiðslu, hefur lækkað úr 12.300 tonnum niður í 8.600 eða um 3.700 tonn. Miðað við verðlagsgrundvöll sauðfjárafurða 1. sept. 1992 hefur verðmæti sauðfjárframleiðslunnar lækkað um 1.787.396 þús. kr., þar af launahlutinn um 810 millj. Það svarar til a.m.k. 760 ársverka í frumframleiðslunni.
    Þessu til viðbótar var samið um niðurfærslu á gjaldalið verðlagsgrundvallar sauðfjárafurða um 2% haustið 1991 og 4% haustið 1992. Niðurfærslan nemur 256 millj. kr. sem a.m.k. í fyrstu kemur til lækkunar á launalið þannig að heildarlækkun hans nemur einum milljarði 66 millj. kr. sem svarar til 1.000 ársverka í frumframleiðslunni.
    Greiðslumark til mjólkurframleiðslu var fært niður um 5 millj. lítra 1. sept. 1992. Verðmæti þessa mjólkurmagns nemur 262.900.000 kr., þar af launaliður 109 millj. kr. eða sem svarar 103 ársverkum. Því til viðbótar kemur niðurfærsla á gjaldalið verðlagsgrundvallar fyrir kúabú um 1% haustið 1992, um 2% haustið 1993 og 2% haustið 1994.
    Samtals nemur niðurfærslan 262.900.000 kr. sem a.m.k. kemur í fyrstu niður á launalið. Heildarlækkun hans nemur því 372 millj. kr. eða sem svarar 350 ársverkum í mjólkurframleiðslunni. Alls nemur því lækkun launaliðar vegna samdráttar í sauðfjár- og mjólkurframleiðslu 1 milljarði 438 millj. kr. eða sem svarar 1.350 ársverkum í frumframleiðslunni.

    Þá er eftir að meta þann hlut fastakostnaðar af framleiðslunni sem fellur ekki út í hlutfalli við samdráttinn í framleiðslunni. Sá kostnaður kemur að mestu til lækkunar á launalið bóndans.``
    Ég hef lesið þessar örfáu tölur til að vekja athygli á þeim gífurlega vanda sem blasir við í landbúnaðinum. Það hlýtur að vera óhjákvæmilegt að þjóðfélagið bregðist á einhvern hátt við honum. Þess vegna var farið fram á það að Þjóðhagsstofnun gerði ítarlega úttekt á þessari stöðu og hvaða afleiðingar þetta hefði í för með sér, ekki aðeins fyrir bændur heldur einnig fyrir þá sem vinna að úrvinnslu- og þjónustustörfum fyrir þá og verða kannski fyrir hlutfallslega enn þá meiri samdrætti a.m.k. á sumum sviðum.
    Vegna þessarar stöðu bar búnaðarþing fram þá áskorun að breytt yrði lögum um atvinnuleysistryggingar á þann veg að atvinnuleysi sem leiðir af samdrætti í búvöruframleiðslunni gefi framleiðendum rétt til atvinnuleysisbóta, a.m.k. sem svarar launalið niðurfærslunnar. Vil ég beina þeirri eindregnu ósk til hv. heilbr.- og trn. að þetta verði eitt þeirra atriða sem hún taki til sérstakrar athugunar.
    Vafalaust er ekki einfalt mál að finna þarna lausn á. En ég vil þó benda á að búrekstur hérlendis er yfirleitt fjölskyldubúrekstur þar sem bæði hjón vinna að honum og síðan auðvitað aðrir úr fjölskyldunni ef þeir eru heima við. En vegna þessarar lækkunar launa vegna samdráttarins sem a.m.k. í sauðfjárræktinni gæti numið 40% af launum á sumum búum er augljóst að þar sem áður hefur verið vinna fyrir tvo þá er ekki lengur fyrir hendi vinna nema fyrir einn. Þá virðist það vera eðlilegt að sá sem þannig missir vinnu sína njóti þegar fullra atvinnuleysisbóta. Þannig mætti bæta úr þessu.
    En ég sagði áðan að þessi samdráttur í frumframleiðslunni ylli einnig samdrætti í úrvinnslu og þjónustu. Þess vegna er þessi staða svo miklu verri nú fyrir bændur en hefði verið á undanförnum árum. Þá var yfirleitt hægt að leita að vinnu í þéttbýli í næsta nágrenni þar sem það var fyrir hendi, og það er mjög víða, til þess að drýgja tekjur sínar. Nú er sá kostur ekki lengur fyrir hendi vegna þessa atvinnuástands þar sem yfirleitt er líka ört vaxandi atvinnuleysi þar.
    Eins og ég sagði ætla ég ekki að lengja mál mitt með því að endurtaka fleiri atriði þó að sjálfsögðu væri margt hægt að ræða um þetta alvarlega vandamál en ég vonast til að frv. verði afgreitt á þessu þingi og þá með eins miklum umbótum og nefndin sér sér fært að koma við við athugun málsins.
    En ég vil líka í lokin láta þá von í ljós að þessi umræða og þær upplýsingar sem hafa komið fram við hana muni hvetja ríkisstjórnina til að huga betur að atvinnumálunum sem hún taldi ekki vera í sínum verkahring þegar hún var mynduð og reyni að stuðla að því að þessari geigvænlegu þróun, sem er ört vaxandi atvinnuleysi, verði snúið við.