Atvinnuleysistryggingar

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:31:47 (7351)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari umræðu. En vegna þess að fjármál Atvinnuleysistryggingasjóðs komu til umræðu vil ég aðeins geta þess að á þessari stundu er með engu móti séð hvernig verður séð fyrir þeim fjármunum sem þarf til að standa straum af þeim atvinnuleysisbótum sem eru fyrirsjáanlegar. Atvinnuleysistryggingasjóður var afgreiddur í fjárlögunum með 1.464 millj. framlag úr ríkissjóði, 500 millj. í framlag frá sveitarfélögum ef ég man rétt sem er endurgreitt eftir ákveðnum reglum. Síðan átti sjóðurinn að ganga á eignir sínar ef ég man rétt upp á 250 til 300 millj. kr. Þá vorum við upplýstir um það í fjárln. eftir áramótin að það mundi vanta a.m.k. 1.200 millj. kr. til viðbótar til að standa straum af því atvinnuleysi sem þá var fyrirsjáanlegt. Fjárlögin voru samþykkt miðað við 4% atvinnuleysi. Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar komu í desember og töldu að atvinnuleysi yrði 4%. Um miðjan janúar var þessi spá hækkuð upp í 5%, nú er atvinnuleysi í mars orðið 5,4%. Það er því sýnilegt að hér er fjárvöntun upp á milljarða kr. og a.m.k. fyrir fjárlaganefndarmönnum hefur ekki verið kynnt enn þá fjáraukalagafrv. í þessu skyni. Síðan til viðbótar eru þau útgjöld sem þetta frv. hefur í för með sér, sem er réttlætismál og ég styð það og við framsóknarmenn höfum stutt það í öllum meginatriðum og teljum að það taki á brýnum réttindamálum og hefði náttúrlega þurft að gera það miklu fyrr. Fjárhagsleg hlið þessa máls er ekki frágengin, það er langt því frá, og auðvitað þarf að gera ráðstafanir í þeim efnum. Það kemur heim og saman við

það sem oft hefur verið tekið fram í umræðum um önnur mál, efnahags- og atvinnumál, að atvinnuleysisvandinn er að verða stærsti vandi ríkisfjármálanna. Það er ljóst að fjármálavandinn, sem stafar af atvinnuleysinu, er áreiðanlega kominn yfir fimm milljarða kr. ef reiknað er bæði gjalda- og tekjumegin. Hér er því ekki um neinn smáræðis vanda að ræða og það er í rauninni undarlegt að það skuli þurfa kjarasamninga sem hafa reyndar ekki tekist enn þá og það skuli þurfa margra mánaða þóf til að fá ríkisstjórnina til að leggja fram tilboð eða tillögu um 1 milljarð til atvinnuaukningar við þær aðstæður sem nú eru.
    Þetta vildi ég láta koma fram við þessa umræðu en að öðru leyti viljum við framsóknarmenn greiða fyrir þessu frv. í öllum meginatriðum, að það nái fram að ganga, því að hér er náttúrlega um mikilsverð réttindamál að ræða þó að það vanti inn í þetta frv. eins og hefur komið fram hér ýmsa hópa sem illa eru settir.