Almannatryggingar

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 00:06:31 (7364)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar tekur að vissu leyti á þeim vandamálum sem nú eru í gildandi almannatryggingalöggjöf og snertir krabbameinssjúk börn. En af því það kom fram áðan í umræðunni hjá hæstv. heilbrrh. að hann réði ýmsu um þingstörfin þá væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hver sé hans skoðun á efni þess frv. sem hér liggur fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að þarna er um viðamikla breytingu að ræða á því fyrirkomulagi sem nú er í gildi almennt hjá fötluðum börnum og þeim greiðslum sem ganga til aðstandenda fatlaðra barna. Ég kem fyrst og fremst í ræðustólinn til þess að fá fram viðbrögð hæstv. ráðherra við efni þessa frv. Ég segi fyrir mig, ég er tilbúinn til þess að styðja það vegna þess að ég held að þau vandamál sem að þessum hópi steðja séu það mikil að það sé nauðsynlegt að leysa þau.