Heilbrigðisþjónusta

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 00:16:52 (7367)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér eru þingkonurnar Guðrún J. Halldórsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Þetta frv. er nú endurflutt en í allbreyttri mynd. Það var áður flutt á 112. löggjafarþingi, en varð þar ekki útrætt. Það er nú flutt með breytingum sem orðið hafa í samræmi við ábendingar sem fram hafa komið hjá starfsfólki sjúkrahúsa.
    Meginefni þessa frv. er að sett verði á fót staða trúnaðarmanna sjúklinga við sjúkrahús og þeir séu talsmenn sjúklinga og aðstandenda þeirra gagnvart sjúkrahúsum og heilbrigðisyfirvöldum. Þetta tel ég að sé mjög brýnt að gera þar sem þrátt fyrir mikla og góða viðleitni starfsfólks á sjúkrastofnunum eru fjöldamörg dæmi um það að fólk komi inn á sjúkrahús án þess að það viti hvert það eigi að snúa sér til að afla upplýsinga og einnig það að aðstandendur, t.d. mjög mikið veikra sjúklinga, hafa ekki tök á því eða þekkingu á því að vita hvert á að leita til þess að fá upplýsingar sem allir eru fúsir að veita.
    Því miður eru til dæmi um það að út úr slíku hafi orðið biturleiki, einkum þegar um alvarleg veikindi og jafnvel dauðsföll á sjúkrahúsum er að ræða. Ég held að með því að setja á laggirnar slíka þjónustu trúnaðarmanna sjúklinga og aðstandenda þeirra mætti bæta þar mjög um. Þar sem þetta er endurflutningur frv. og efnislega hefur það ekki breyst mikið, þá tel ég ekki ástæðu til að hafa lengri framsögu að öðru leyti en því að drepa á þær breytingar sem gerðar hafa verið, en þær felast einkum í því að tryggja það að trúnaðarmaður sé í nánum tengslum við annað það starf sem fer fram á viðkomandi sjúkrastofnunum og gegnir starfi trúnaðarmanns samhliða öðrum skyldustörfum á stofnuninni. Einnig er gefið svigrúm til þess að trúnaðarmenn á stærri sjúkrahúsum komi úr fleiri heilbrigðisstéttum en hjúkrunarfræðinga eins og var í upphaflega frv. Og þá er gert ráð fyrir því að þeir geti haft með sér náið samstarf og jafnvel myndað teymi trúnaðarmanna sem hafi góða yfirsýn yfir starfsemi sjúkrahússins og bein tengsl við sem flestar heilbrigðisstéttir. Það er ekki síst fyrir ábendingar hjúkrunarfræðinga sem þessar breytingar hafa verið gerðar á frv. Ég held að sú ábending sé mjög vel ígrunduð þar sem því miður eimir enn eftir af því að það sé töluverð stéttskipting á sjúkrahúsum.
    Að öðru leyti vísa ég til frumvarpstexta en þar er lagt til að á eftir 29. gr. laga um heilbrigðisþjónustu komi ný og fremur ítarleg grein og er það í samræmi við þá skoðun mína að það sé heppilegt að kveða skýrt á í lagatexta og vísa ekki einungis til reglugerða eða túlkunar. Einnig vísa ég til greinargerðar með þessu frv. en þar tel ég að þau rök sem ég vil færa fram í málinu komi fram. En ég ítreka að þetta frv. er efnislega nokkuð breytt frá því frv. sem flutt var á 112. löggjafarþingi og ég vona að það verði til þess að það muni eiga greiðari leið í gegnum þingið heldur en það frv. sem mætti nokkurri tortryggni heilbrigðisstétta að ástæðulausu að mínu mati.