Almenn hegningarlög

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 00:21:53 (7368)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. sem allir nefndarmenn undirritað um frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, á þskj. 980. Með leyfi forseta mun ég nú gera grein fyrir nál.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og bárust henni umsagnir frá Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, Sýslumannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands. Þessir aðilar eru meðmæltir samþykkt frv.
    Í frv. er lagt til að lögfest verði refsiákvæði um viðtöku, geymslu og flutning ávinnings af fíkniefnabrotum, en telja verður að almennt sé ekki unnt samkvæmt gildandi lögum að refsa fyrir viðtöku ágóða af fíkniefnasölu og gildir það sama um flutning, geymslu og aðra sambærilega aðstoð sem kemur til eftir að frumbrotið er framið. Markmið 1. gr. frv. er annars vegar að ná til þeirra sem standa að fíkniefnaviðskiptum án þess að eiga beina aðild að innflutningi eða dreifingu fíkniefnanna. Hins vegar verði fíkniefnaviðskipti takmörkuð með því að refsivert verði að aðstoða við undanskot ávinnings af fíkniefnaviðskiptum.

    Samhliða þessu frv. er flutt frv. til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, 339. mál, og er þar lagt til að við lögin bætist sams konar ákvæði og þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Refsiákvæðinu er ætlað að hamla gegn fíkniefnaviðskiptum og enn fremur takmarka möguleika milliliða til að tryggja sér ávinning af fíkniefnaviðskiptum. Er nefndin þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að lögfesta ákvæði af þessu tagi og mælir með samþykkt frv.``
    Virðulegi forseti. Allshn. telur afar mikilvægt að þessu máli verði vel tekið á hinu háa Alþingi því að hér er um að ræða nauðsynlegar lagabreytingar í tengslum við báráttuna gegn fíkniefnaviðskiptum. Umsagnaraðilar lögðu einnig áherslu á mikilvægi þessa máls. Hér er lögð áhersla á viðskiptin sjálf og þá aðila sem hafa haft ágóða af slíkum viðskiptum. Þessara milliliða hefur verið erfitt að ná til því að vafi hefur leikið á því að hvaða leyti hægt sé að refsa þeim fyrir hlutdeild í fíkniefnabroti, þeim sem t.d. tekur við, geymir eða flytur ágóða vegna brotsins. Um þetta segir m.a. í grg. með frv., með leyfi forseta:
    ,,Vafi er talinn leika á því að hvaða leyti sé hægt að refsa þeim fyrir hlutdeild í fíkniefnabroti sem t.d. tekur við, geymir eða flytur ágóða af fíkniefnabroti. Samkvæmt 22. gr. hegningarlaga, þar sem fjallað er um hlutdeild, skal hverjum þeim refsað sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt tekur þátt í því að brot samkvæmt lögunum er framið. Hlutdeildarákvæði tekur fyrst og fremst til hlutdeildar í verknaði sem til er komin áður en brot er framið eða samtímis framningu þess. Almennt er aðstoð, sem veitt er eftir það tímamark, refsilaus nema hún sé veitt samkvæmt samkomulagi sem gert var fyrir verknaðinn.
    Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að almennt sé ekki unnt samkvæmt gildandi lögum að refsa fyrir viðtöku ágóða af fíkniefnasölu. Það sama gildir um flutning, geymslu og aðrar sambærilega aðstoð sem kemur til eftir að frumbrotið er framið.``
    Hér er gerð tillaga um nýja grein við 173. gr. hegningarlaga, þ.e. 173. gr. b, en hún er í þeim kafla hegningarlaga sem nefnist: Brot sem hafa í för með sér almannahættu. Í núgildandi ákvæði, 173. gr. a er mælt fyrir um refsingu við sölu og afhendingu á fíkniefnum en vafi hefur leikið um hlutdeildarbrot eins og áður er getið. Þess vegna er nauðsynlegt að breyta bæði hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni --- en það mál er hér næst á dagskrá --- og mæla fyrir um refsingu allt að 10 ára fangelsi fyrir þá sem standa að fíkniefnaviðskiptum án þess að eiga beina aðild að innflutningi eða dreifingu fíkniefnanna. Þótt þessi tvö lagafrumvörp standi alveg sjálfstætt, þá er nú frv. til meðferðar í efh.- og viðskn. um peningaþvott eða peningaþvætti eins og það er nú nefnt og er það frv. tengt þeim frumvörpum sem hér er mælt fyrir.
    Frv. um peningaþvætti byggist á tilskipun frá Evrópubandalaginu og á að reyna að fyrirbyggja að fjármálastofnanir verði notaðar í þessum tilgangi. Það er því mikilvægt að mínu mati að meðferð þessa máls verði hraðað eftir föngum. Grundvöllur þeirrar lagabreytingar sem hér hefur verið rætt um byggist m.a. á umræðum á alþjóðavettvangi um aðgerðir gegn ólöglegum fíkniefnaviðskiptum og athyglinni undanfarin ár hefur verið í auknum mæli beint að fjárhagshlið viðskiptanna. Þessi hlið mála hefur einnig verið raunhæft vandamál hér á landi og því er nauðsynlegt að enginn vafi leiki á um refsingar við þessum brotum og hægt sé að refsa fyrir þessi brot sjálfstætt. Þetta mál er því mikilvægur liður í baráttunni gegn fíkniefnum og það er nauðsynlegt að senda þessi skilaboð út í þjóðfélagið í varnaðarskyni sem fyrst.