Kirkjugarðar

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 00:40:40 (7371)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram í upphafi máls míns að þótt ég riti undir nál. með fyrirvara, þá hef ég ákveðið að styðja þetta frv. og stuðningur minn er ekki eingöngu vegna þess að ég sé sátt við öll þau ákvæði sem þar eru heldur fyrst og fremst til þess að sýna ákveðna samstöðu vegna þess að það er útlit fyrir að ákveðin sátt hafi náðst í mjög erfiðu deilumáli, þó e.t.v. ekki fullnaðarsátt. Það munu komandi vikur og mánuðir leiða í ljós, þar sem enn eru einhver gagnrýniatriði í umræðunni. En þar sem nú er komin ákveðin niðurstaða í þessa mál, þá finnst mér ástæða til þess að styðja það til enda. Og ég vil einnig taka undir með hv. formanni nefndarinnar að það hefur verið unnið vel í þessu máli innan nefndarinnar og ég þakka henni einnig samstarfið og elju og þolinmæði við að vinna þetta frv. eins vel og hægt var miðað við það að nokkur efnislegur skoðanaágreiningur var uppi. Og það er einmitt að þessum efnislega skoðanaágreiningi sem minn fyrirvari lýtur.
    Það er almennt séð fyrst og fremst vegna þess að mér þykir nokkuð langt enn þá seilst í þá átt að sýna of mikla forsjárhyggju gagnvart óskum fólks um það hvað það vill að verði um það eftir andlátið. Svo sem kunnugt er hefur hér lengi verið sú hefð að ekki má í raun koma jarðneskum leifum fólks fyrir annars staðar en í kirkjugarði. Vissulega er það til bóta og það mikilla bóta að nú skuli vera möguleiki til þess bæði að hafa óvígðan reit innan kirkjugarðs og einnig að hafa ómerktar grafir. Hvort tveggja kemur til móts við sjónarmið þeirra sem ekki kjósa að hvíla annaðhvort í vígðri mold eða leggja það á ættingja sína t.d. að fara að hirða um grafir og annað slíkt. En í sumra augum er það einfaldlega álag á ættingja sem þeir kjósa ekki að standa fyrir. Og ég tel fulla ástæðu til þess að virða hinstu óskir fólks. Það sem ekki er gert hérna, og ég hefði kosið að sjá í þessu frv., er það að virða óskir þeirra sem vilja hafa þann háttinn á að geta t.d. fengið að láta dreifa ösku sinni út yfir hafið. Þetta er þekkt hjá ýmsum öðrum þjóðum. Ég verð að segja það eins og er að þeir sem ég hef rætt þetta mál við, trúa mér hreinlega ekki þegar ég segi að t.d. gamlir skipstjórar hafi ekki leyfi til þess að láta dreifa ösku sinni yfir Faxaflóa eða einhver fengsæl mið eftir sinni ósk. Mér þykir það alla vega mjög einkennilegt að vera með svona ofvaxna forsjárhyggju gagnvart jarðneskum leifum fólks og að virða ekki það sem oft er viðkvæmt hjá fólki, en það eru hinstu óskirnar. Og þetta tel ég að maður verði að taka alvarlega. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það væri breyting á hefð sem hefur verið, ef það væri farið út á þessa braut sem ég nefni hér, en ég held að sú breyting væri til bóta.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi fram að ég hef þennan fyrirvara, þennan ákveðna efnislega fyrirvara vegna þess að ég tel að það verði að virða óskir fólks og þetta er ekki að neinu leyti hugsað sem einhvert ábyrgðarleysi eða fleipur með jarðneskar leifar, síður en svo, heldur einmitt það að virða það hvernig fólk vill ráða því hvað verður um þeirra jarðnesku leifar. Ég geri mér hins vegar fullkomna grein fyrir því að einhver mörk verður að setja og ég tel það t.d. eðlilegt að það sé þá miðað við það að fólk sé ekki skylt að láta ker með ösku fara ofan í mold ef það kýs eitthvað annað og mér þykir satt að segja nokkuð hjákátlegt svo að ekki sé meira sagt að það skuli vera borið við heilbrigðissjónarmiðum m.a. hjá þeim sem mæla gegn slíkri tilhögun. Það kom fram í störfum nefndarinnar að meiri hluti þeirrar ösku sem fer í duftker kemur nú reyndar af kistu sem er brennd með. Ég læt það liggja á milli hluta að ræða það hvort það sé yfir höfuð ástæða til þess að vera að brenna kistur í stórum stíl, en látum það nú vera. En hér er ekki um óyfirstíganlegt mál að ræða í augum margra annarra þjóða og ég sé ekki að við ættum að þurfa að hafa svo ýkjamiklar áhyggjur af því að t.d. allur Faxaflói verði mengaður vegna slíks. Þetta er bara fyrirsláttur og ekkert annað.
    Þetta er minn meginfyrirvari en einnig geri ég athugasemd við það þrátt fyrir orð hv. formanns allshn. að það skuli vera miðað enn við aðstöðugjald í þessu frv. þar sem fyrir liggur að aðstöðugjald er stofn sem ekki á að miða við í framtíðinni. Og mér þykir það hreinlega skjóta skökku við að vera að setja núna í lög viðmiðun við aðstöðugjald. Ég held að það hefði ekki verið svo óskaplega erfitt að reyna að glíma við þetta mál. Nógu mörg erfið úrlausnarefni voru leyst við vinnslu þessa máls, bæði á milli þinga og í nefnd þannig að það var óþarfi að gefast upp í þessari glímu og það er hjákátlegt að vera að setja núna í lög ákvæði um viðmiðun við aðstöðugjald eins og gert er í 38. gr. þessa frv.
    Varðandi útfararkostnað tel ég að það hafi náðst viðunandi niðurstaða, a.m.k. eftir því sem kynnt var í nefndinni. Það sem fyrst og fremst er í mínum huga mikilvægt er sú samræming og sú nýja skipan að þjóðkirkju og ákveðnum landsvæðum sé ekki hyglað umfram aðra varðandi niðurgreiðslu á útfararkostnaði að þetta frv. muni ekki verða til þess að hækka útfararkostnað almennt heldur jafna. Og mér þykir mikilvægt að þær upplýsingar komi fram í nefndinni og treysti því að svo muni verða.
    Þetta eru þau atriði sem mér þykir á þessu stigi málsins mikilvægast að drepa á. Vissulega hefði verið verðugt að ræða þetta mál á dagtíma og taka ítarlegri umræðu, ekki síst eftir alla þá umræðu sem verið hefur áður en frv. kom í þann búning sem það nú er eða verður ef brtt. hv. nefndar verða samþykktar. En þar sem ekki er hægt að bjóða upp á betri tíma fyrir þetta mikilvæga mál, þá held ég að það sé alveg óþarfi að vera að tefja þennan þingfund mikið lengur. Ég tek það sérstaklega fram að minn fyrirvari er fyrst og fremst vegna þessara efnisatriða en það eru önnur atriði einnig sem ég hefði gjarnan viljað gera hér að umtalsefni. Það er bagalegt að vinna undir þessari pressu sem nú er. Við erum hér býsna mörg sem þurfum að sækja nefndarfundi snemma í fyrramálið, höfum beðið lengi eftir að komast að í þessa umræðu og ég læt þetta duga að þessu sinni.