Meðferð opinberra mála

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 01:08:28 (7375)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni þessa minnihlutaálits þykir mér rétt að koma með nokkrar athugasemdir. Eins og ég hef nefnt áður þá kom það skýrt fram hjá umsagnaraðilum að þeir voru fylgjandi þeirri breytingu sem frv. gerir ráð fyrir og það voru allir dómstólar landsins, ríkissaksóknari, lögreglustjórinn í Reykjavík og fleiri aðilar sem sendu umsagnir ásamt Lögmannafélagi Íslands, en þar sem sérstaklega er vitnað til þeirrar umsagnar þá tel ég rétt að taka það fram að þeir vísa einmitt til þessa dóma sem er minnst á í grg. með frv., annars vegar dóms Hæstaréttar Íslands frá 7. jan. 1993 og síðan héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. sept. 1992 og segja sem svo að hér sé því verið að reyna að sníða vankanta af nýlegum lagabálki. Þeir koma með þessi almennu aðvörunarorð, en segja síðan í lokin:
    ,,Laganefnd hlýtur að vekja athygli á þessu og jafnframt að leggja til að farið sé varlega í þessum efnum.`` --- Þetta er sem sé almenn viðvörun sem að sjálfsögðu er rétt að hafa í huga.
    Halldór Þorbjörnsson kom sem fulltrúi réttarfarsnefndar á fund allshn. en réttarfarsnefnd samdi einmitt frv. um meðferð opinberra mála í tengslum við aðskilnaðinn. Þeir opnuðu þar fyrir ákæruvald lögreglustjóra m.a. vegna þess að það hefði þótt ófært að það væri bara einn aðili í Reykjavík sem gæti ákært, þ.e. ríkissaksóknari, en ekki hefði þótt heppilegt að fara að stofna nýtt bákn, þ.e. ríkissaksóknara út um allt land.
    Halldór tók undir það að þetta væri stigsmunur og hér væri um að ræða ákæruvaldið í víðari merkingu, enn fremur að hann hefði sjálfur bent á ýmis atriði sem þyrfti að breyta, m.a. skv. 5. gr. frv.
    Ég held nú reyndar að ummæli hans hafi e.t.v. eitthvað verið misskilin en meiri hluti nefndarinnar taldi þessar breytingar réttar enda þótt full ástæða sé til að fara varlega á þessu sviði.
    Varðandi dómstjóra sem hv. þm. minntist á hér áðan þá hef ég ástæðu til að ætla að ákveðnar reglur gildi um verk þeirra og tel því ekki ástæðu til þess að óttast um starfsemi þeirra.
    Það er einnig rétt að benda á 27. gr. laga um meðferð opinberra mála en þar getur ríkissaksóknari m.a. kveðið á um rannsókn máls og mælt fyrir um framkvæmd hennar eða tekið rannsókn í sínar hendur. Enn fremur er rétt að benda á 4. gr. laga um Rannsóknarlögreglu ríkisins þar sem ríkissaksóknari getur falið Rannsóknarlögreglu ríkisins rannsóknir einstakra mála, hvar sem er á landinu, þegar hann telur þess þörf. Þannig að þetta eru víðtækar heimildir.
    Segja má að þetta sé ákæruvaldið í víðari merkingu en ýmsum hefur einmitt þótt óheppilegt hversu lítil tengsl hafa verið hér á landi milli lögreglu og ríkissaksóknara en það hvílir sama hlutlægnisskyldan á þessum aðilum, skv. 31. gr. laganna um meðferð opinberra mála.
    Að síðustu má svo benda á athyglisvert viðtal í Dagblaðinu í dag við Gísla Guðjónsson réttarsálfræðing í Bretlandi um íslenskt réttarkerfi en hann telur meiri líkur á réttlátri málsmeðferð hér á landi en t.d. bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hérna eru játningar yfirleitt fengnar fram á grundvelli miklu ítarlegri vinnu þar sem einnig er tekið tillit til þess við rannsóknir mála að viðkomandi geti verið saklaus. Rannsóknarvinna lögreglu hér er mjög vönduð og því meiri líkur á réttlátri málsmeðferð.``