Húsnæðisstofnun ríkisins

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 01:52:31 (7381)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. frsm. að þetta mál hefur nokkuð verið skoðað í félmrn. í tengslum við endurskoðun sem fram hefur farið á félagslega íbúðakerfinu en það hefur þótt rétt að fara yfir reynsluna af nýjum lögum sem sett voru fyrir tveim eða þremur árum síðan og hefur nefnd sem starfað hefur á mínum vegum m.a. skoðað þetta atriði og fleiri og í því sambandi heimsótt húsnæðisnefndir víðs vegar um landið. Ég held að það sé rétt sem segir í frv. að það hafi komið í ljós að ekki sé lagaheimild til að veita lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Ég tel að hér sé að hluta til um misskilning að ræða því það þarf að gera greinarmun á heilsuspillandi húsnæði í þéttbýli annars vegar og á lögbýlum hins vegar. Um heilsuspillandi húsnæði í þéttbýli er það að segja að það fellur undir félagslega íbúðalánakerfið enda sé eignarhluti undir hinum almennu eignarmörkum sem eru rúmlega 1,8 millj. kr. Lakar húsnæðisaðstæður, svo sem heilsuspillandi húsnæði eru einmitt settar efstar á blað þegar húsnæðisnefndir raða umsóknum í forgang. Einnig tel ég rétt að benda á að jafnvel þó að eignarhlutinn fari yfir 1,8 millj. kr. en húsnæðið er sannanlega heilsuspillandi þá kemur til skjalanna undanþáguákvæði laganna, þ.e. heimild til að gera undanþágu frá eignamörkum þegar umsækjandi býr við ófullnægjandi húsnæðisaðstæður. Það ákvæði á við um heilsuspillandi húsnæði. Þess vegna tel ég að það sé vel séð fyrir þessu varðandi lánaflokk í félagslega kerfinu þegar um er að ræða heilsuspillandi húsnæði í þéttbýli.
    Um heilsuspillandi húsnæði á lögbýlum gegnir öðru máli eins og hv. frsm. nefndi. Þau mál falla utan garðs í félagslega kerfinu og ekki er réttur heldur varðandi Byggingarsjóð ríkisins en sá vandi tengist þó ekki því að íbúðirnar séu heilsuspillandi heldur því að þær eru á lögbýlum. Þetta stafar af því að hér er ekki einungis um íbúðir að ræða heldur einnig jarðir. Kaupskylda og forkaupsréttur sveitarfélaga nær eðli máls samkvæmt ekki eingöngu til íbúðanna. Til að ráða bót á þessari eyðu sem er fyrir hendi í félagslega kerfinu þá hefur það einmitt komið til skoðunar í þessari nefnd sem ég nefndi hvort ekki sé rétt að koma á sérstökum lánaflokki vegna lögbýla. Nefndin sem vinnur að þessari athugun leggur til, er mér kunnugt um þó hún hafi ekki skilað mér skýrslu, þau nýmæli að Byggingarsjóður verkamanna veiti viðkomandi sveitarfélagi sérstakt lán vegna lögbýla með ábyrgð sveitarfélags en án kaupskyldu. Sveitarfélag endurláni síðan viðkomandi umsækjanda vegna lögbýlisins. En nefndin telur sem sagt rétt að leysa þetta mál innan félagslega kerfisins en ekki innan Byggingarsjóðs ríkisins.