Útboð á rekstri Fríhafnarinnar í Keflavík

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:04:29 (7387)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár vegna fréttar um það að ákveðið hafi verið að bjóða út rekstur Fríhafnarinnar í Keflavík.
    Útboð á einstökum rekstrarþáttum ríkisins getur verið af hinu góða og með þessari umræðu er ég

ekki að hafna öllum slíkum hlutum. Hins vegar þurfa að vera ákveðnar forsendur fyrir því að slík útboð fari fram, t.d. ef skortur er á rekstrarhagkvæmni í viðkomandi fyrirtæki, ef skortur er á rekstrarárangri í viðkomandi fyrirtæki, ef stofnanir fara ítrekað umfram fjárlög, ef stofnanir skila ekki því inn í ríkissjóð sem þeim er ætlað á fjárlögum eða að uppi eru hugmyndir um það hjá stjórnvaldinu að ýmiss konar bruðl og óráðsía fari þar fram. Þessu er ekki til að dreifa um Fríhöfnina í Keflavík og er það öðru nær. Nokkur dæmi vil ég nefna því til staðfestu.
    1. Hagnaður Fríhafnarinnar í Keflavík árið 1978 var 4,3 millj. kr. Árið 1992 er hagnaðurinn 532 millj. kr. Því til viðbótar greiðir Fríhöfnin 80 millj. kr. í húsaleigu til flugstöðvarinnar. Þetta telst því ekki skortur á rekstrarárangri.
    2. Sala á hvern farþega á árunum 1978--1992 hefur tæplega fjórfaldast, úr 795 kr. í 3.020 kr. á hvern mann. Þetta getur ekki talist skortur á rekstrarárangri.
    3. Fríhöfnin hefur skilað 50--100 millj. kr. meira í ríkissjóð á ári hverju en fjárlög gera ráð fyrir. Það er ekki hægt að ásaka Fríhöfnina fyrir það að hafa ekki staðið við fjárlög.
    4. Risna Fríhafnarinnar, fyrirtækis sem veltir tæpum tveimur milljörðum kr. er 3.600 kr. árið 1992. Ferðakostnaður vegna utanlandsferða er ekki ein einasta króna. Þarna verður varla talað um það af hálfu ríkisvaldsins að um bruðl og óráðsíu sé að ræða. Með öðrum orðum, Fríhöfnin í Keflavík er gullmoli sem ríkið er með í höndunum, sem búið er að byggja upp af eljusemi, af útsjónarsemi og miklum dugnaði þess starfsfólks sem þar vinnur. Það er auðvitað ekki hægt undir slíkum kringumstæðum að sætta sig við að þessi gullmoli sé afhentur bara einhverjum, jafnvel einhverjum útvöldum.
    Flugstöðin í Keflavík á við mikla rekstrarerfiðleika að etja. Á því hef ég skilning. Og ég hef skilning á því að ríkisstjórnin vilji auka tekjur Flugstöðvarinnar með því m.a. að láta fyrirtæki sem þar eru starfandi borga meira. Því spyr ég hæstv. utanrrh.: Hefur verið rætt við stjórnendur og starfsfólk Fríhafnarinnar í Keflavík um það að hugsanlega verði tekjur Fríhafnarinnar auknar inn í ríkissjóð, Fríhöfnin verði látin borga meira, það verði leitað leiða til þess? T.d. með því að Fríhöfnin taki að sér rekstur Íslensks markaðar sem skilar engri einustu krónu í ríkissjóð í dag, borgar 20% lægri leigu en Fríhöfnin greiðir til flugstöðvarinnar. Bara með þessari aðgerð einni saman, að láta Fríhöfnina yfirtaka rekstur Íslensks markaðar, greiða sömu leigu, er hægt að skila tekjum til viðbótar í ríkissjóð á bilinu 70--90 millj. kr.
    Á vegum ríkisstjórnar hafa áður verið uppi hugmyndir og tillögur til útboðs á rekstri Fríhafnarinnar. Það var árið 1981. Þá átti að grundvalla útboðsleiguna á þeim hagnaði sem þá var í Fríhöfninni. Ef þetta hefði gengið eftir hefð það þýtt að Fríhöfnin væri að skila 240 millj. kr. til ríkisins í dag. En hún skilar 530 millj. kr. Það er því ekki hægt að afhenda einhverjum Fríhöfnina þó svo að það séu loforð um að tekjurnar eigi að aukast. Í fyrsta lagi eru engar tryggingar fyrir því að tekjurnar muni aukast. Í öðru lagi mundi ríkissjóður þurfa að taka á sig byrðar á bilinu 60--80 millj. kr. vegna biðlauna. Í þriðja lagi yrði mikil óvissa hjá starfsfólki. Sennilega kæmi til uppsagna, atvinnuleysis og viðbótarútgjalda ríkissjóðs vegna aukins atvinnuleysis. Fái Flugleiðir, eins og talað er um, þennan gullmola, þá yrði það enn ein gjöf þessarar ríkisstjórnar til kolkrabbans. Þá yrði allur rekstur Flugstöðvarinnar í Keflavík kominn á hendi eins fyrirtækis og það er auðvitað ekki við það búandi. Verði þetta boðið út, þá er það rangt að mínu viti. Það er óvirðing og vanþakklæti ríkisstjórnarinnar við mikinn og góðan rekstrarárangur þess fólks sem nú er starfandi við Fríhöfnina. Ég vil því að lokum spyrja hæstv. utanrrh. nokkurra spurninga auk þeirra spurninga sem ég hef þegar lagt fyrir hann:
    1. Kemur til greina að afhenda Flugleiðum Fríhöfnina í Keflavík?
    2. Hvað greiða Flugleiðir í ríkissjóð af rekstri Fríhafnarinnar í Reykjavík sem Flugleiðir hafa?
    3. Kemur til greina að afhenda Fríhöfninni rekstur flugstöðvarbyggingarinnar?