Útboð á rekstri Fríhafnarinnar í Keflavík

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:18:17 (7390)


     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hefur þetta málefni verið til umræðu um skeið í stjórnkerfinu, þ.e. afkoma flugstöðvarinnar og afkoma þess verslunarreksturs sem þar er stundaður. Fríhöfnin er ein þeirra verslana sem þar eru og um hana verður með réttu að segja að hún hefur náð markverðum árangri um langt skeið miðað við hlutfall verslunar hvers farþega samanborið við aðrar fríhafnir. Þessum árangri má ekki glopra niður hvers konar breytingar sem afráðnar verða og auðvitað verðum við að gæta réttinda þeirra starfsmanna sem þar hafa verið á vegum okkar.
    Það verður að geta þess, virðulegi forseti, að um þetta efni segja þeir starfsmenn að þeir hafi fyrir því heimildir að sú nefnd sem lagt hefur þessar hugmyndir fyrir ríkisstjórn hafi veitt 20 mínútna umræðu við forstjóra fyrirtækisins og það voru öll kynni nefndarinnar af fyrirtækinu. Hvort þetta er rétt skal ég ekki um segja, en ef fyrir þessu er fótur, þá er ekki víst að allar tillögur nefndarinnar séu virkilega ráðlegar.
    Ég fyrir mitt leyti hlýt að vara við aukinni gjaldtöku af farþegum, af flugáhöfnum, af flugfélögum sem skipta við flugvöllinn og tel það ekki leið til að bæta afkomu flugstöðvarinnar eða afkomu okkar af þeirri starfsemi sem þar er rekin. Ég tel að við eigum fremur að stefna að auknum umsvifum við flugvöllinn og í því samhengi verður að gæta þess að við höfum þá reynslu og ábendingar að það er nauðsyn að létta af einokun sem þar hefur verið ráðandi, hvort heldur er einokun ríkisfyrirtækja eða markaðsráðandi fyrirtækja líkt og segja má um Flugleiðir og Íslenskan markað.
    Um samanburð Íslensks markaðar og Fríhafnarinnar verð ég þó að viðurkenna að er ekki með öllu sanngjarn því farþegum er öllum beint í gegnum Fríhöfnina. Þeir hins vegar fyrir tilviljun rekast á Íslenskan markað í flugstöðinni. Þetta er mismunur á aðstöðu fyrirtækis og ríkisstofnana. Ég tel nauðsynlegt, virðulegi forseti, að þess verði gætt að við höfum hér starfsfólk á okkar vegum. Það hefur sýnt mjög góða frammistöðu og hefur áunnið sér ákveðin réttindi sem við eigum að gæta.