Útboð á rekstri Fríhafnarinnar í Keflavík

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:20:41 (7391)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hér í umræðunni er Fríhöfnin í Keflavík rekin með góðum og vaxandi hagnaði. Fríhöfnin er í hópi söluhæstu fríhafna heims, nr. 76 á lista sem ég hef undir höndum frá árinu 1991 og virðist þar vera áttunda söluhæsta fríhöfnin af 130 stærstu fríhöfnum heimsins hvað varðar sölu á farþega á árinu 1991 eða með 44 dollara tæpa á farþega. Þessi tala hækkar enn á árinu 1992 í 47 dollara á mann. Það verður þess vegna erfitt að finna rök fyrir breytingum vegna þess að þarna sé einhverju ábótavant í rekstri. Enn síður finnast þau með því að skoða þróun mála undanfarin ár þar sem hagnaður og sölutekjur hafa vaxið ár frá ári.
    Ég minni á að tekjur Ferðamálaráðs eru hlutfall af sölutekjum Fríhafnarinnar og sá rökstuðningur sem hæstv. utanrrh. fór með að breytingarnar væru nauðsynlegar vegna rekstrarhalla flugstöðvarinnar eru út í hött, algerlega út í hött. Það er að sjálfsögðu bókhaldsatriði hvernig þessum tekjum er þá ráðstafað upp í afborgarnir af lánum Fríhafnarinnar eða öllu heldur flugstöðvarinnar. Það sem skiptir máli er að starfsemin sé vel rekin, hún skili hagnaði. Ríkið fær þann hagnað og hæstv. utanrrh. fær ekki nokkurn mann til að trúa því að það þurfi að framkvæma umtalsverðar breytingar eða einkavæðingu á rekstrinum til þess að hægt sé að ráðstafa þessum tekjum yfir í tiltekin verkefni. Það er bull og vitleysa og allir hv. alþm. sem og aðrir hugsandi menn sjá að þannig er það. Þess þarf nú ekki. En hitt er miklu nær að menn velti því fyrir sér, á ekki að fela þessu duglega fólki sem svona vel hefur staðið að málum að reyna að bjarga því sem bjargað verður í þessum rekstri og öðrum þáttum hans og innleiða sambærilegan árangur í rekstri víðar í flugstöðinni? Og eins og venjulega verður svo að átelja það að hæstv. ríkisstjórn talar síðast allra við starfsfólkið sem hefur væntanlega frétt af þessum hugmyndum í gegnum fjölmiðla þessu tilviki eins og öðru. Og það ætti að fara að benda hæstv. ríkisstjórn á það að láta þann rekstur á vegum hins opinbera sem gengur vel og skilar hagnaði í friði, reyna frekar að gera eitthvað í hinu sem er afvelta.