Útboð á rekstri Fríhafnarinnar í Keflavík

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:26:48 (7394)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hún er bersýnilega nokkuð sérkennileg þessi starfsnefnd utanrrn. sem hefur ekki haft fyrir því að ræða ekki við starfsfólkið og ekki einu sinni við samgrn. um þau mál sem hér er verið að fjalla um.
    Ég vil benda á, virðulegi forseti, að í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins á bls. 17 eru gerðar tillögur um umbætur í rekstri flugstöðvarinnar. Þar er bent á það að það sé rétt að sameina rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Flugmálastjórnar á Keflavíkugflugvelli, að hækka lendingargjöld, að hækka innritunargjald og reyna að ná inn hærri húsaleigutekjum, t.d. með því að Fríhöfnin yfirtaki rekstur Íslensks markaðar.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1991 er einnig fjallað um þetta mál og þar kemur fram vandinn. Hver er hann? Hann er sá að skuldir flugstöðvarinnar við Ríkisábyrgðasjóð námu án dráttarvaxta 3,1 milljarði kr. í lok ársins 1991 og þar kemur það líka fram að uppsöfnuð vanskil, vanskil við Ríkisábyrgðasjóð jukust á árinu 1991 einu saman um 130 millj. kr. Tillaga Ríkisendurskoðunar í hnotskurn er þessi: Ef fyrirtækið á að geta gengið, þá verður ríkissjóður að yfirtaka skuldir af flugstöðinni upp á 1,7 milljarða kr. og auk þess að hækka tekjur fyrirtækisins um 150 millj. kr. Og það er auðvitað þetta verkefni sem utanrrh. á að snúa sér að að taka á með beinum hætti í stað þess að draga saklaust starfsfólk Fríhafnarinnar inn í þau vandamál sem hér um ræðir. Og ég hlýt að spyrja í framhaldi af orðum hæstv. utanrrh. hér áðan: Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að taka á þessu máli? Hvenær og hvernig? Það þolir enga bið því að án breytinga má gera ráð fyrir því að vanskilin hjá Ríkisábyrgðasjóði aukist á þessu ári um 150--200 millj. kr.