Útboð á rekstri Fríhafnarinnar í Keflavík

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:29:02 (7395)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Eins og fram hefur komið í þessum umræðum --- sem reyndar er vel kunnugt --- er rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli til mikillar fyrirmyndar. Fjárhagsvandi flugstöðvarinnar stafar þess vegna alls ekki af rekstri Fríhafnarinnar.
    Hins vegar leita menn nú allra leiða til þess að treysta fjárhagsgrundvöll þessa mikilvæga fyrirtækis sem er flugstöðin í heild. Þar hlýtur að koma til greina hvernig megi hafa enn meiri tekjur af þeim rekstri sem Fríhöfnin nú stendur fyrir, m.a. og ekki síst með því að athuga hvort ekki sé rétt að fá Fríhöfninni stærra verslunarsvæði, aukið athafnasvæði í flugstöðinni. Í því sambandi kemur að sjálfsögðu líka til greina að athuga rekstrarform og fyrirkomulag þessarar starfsemi. Það er einmitt þetta sem nú er verið að gera og eins og kom fram í máli utanrrh., þá verða teknar upp viðræður við starfsmenn og stjórnendur Fríhafnarinnar um það hvernig best sé að standa að þessu.
    Ég er sannfærður um að það má finna í þessu máli leiðir sem í senn skila ríkissjóði auknum tekjum og tryggja starfsöryggi fólksins sem þarna vinnur og hefur unnið og vinnur vel.
    Ég tel að það væri t.d. afar óheppilegt að fela Flugleiðum einum að annast þessa starfsemi. Ég held að það væri alls ekki í samræmi við þá stefnu um samkeppni í okkar samfélagi sem nú er uppi og Alþingi hefur nýlega samþykkt.
    Menn hafa rætt hér nokkuð um óvissu um framtíð Fríhafnarinnar. Sem betur fer er sú óvissa nú fyrst og fremst um það hvernig best sé að færa út kvíarnar í Fríhöfninni í framtíðinni?