Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 14:49:35 (7404)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þessi umræða endurtekur sig æ ofan í æ. Hér er um það að ræða að nú er svo komið að ríkið hefur tekið á sig skuldbindingar sem eru í kringum 2,3 milljarðar vegna ferja og flóabáta og er allur þunginn af þeim skuldbindingum orðinn til á allra síðustu árum. Það eru ekki nema nokkur ár síðan að varið var til stofnkostnaðar á fjárlögum 1--2 millj. kr. og nú er svo komið að skuldirnar nema á þriðja milljarð. Það hefur líka verið venja hér í sambandi við ferjur og flóabáta að málefni þeirra hafa velkst á milli ráðuneyta, samgrn. og fjmrn., og það hefur ekki verið þangað til ég kom í embætti samgrh. gerð tilraun til þess að veita nægilega rekstrar- og stofnstyrki til ferja og flóabáta að dugað hafi fyrir viðkomandi fjárlagaári þó svo að þingmönnum og öllum mætti ljóst vera að þar væri vísvitandi um vanáætlanir að ræða. Það sem hér er verið að gera er að í fyrsta skipti, ég veit ekki hvort ég á segja svo áratugum skipti eða a.m.k. í fyrsta skipti svo fjölmörgum árum skiptir, 10 eða 20 a.m.k., gerð tilraun til þess að koma málunum í það horf að í fyrsta lagi liggi nákvæm áætlun fyrir um það hverjar séu afborganir og vextir af þeim lánum sem hvíla á viðkomandi rekstri og jafnframt gerð tilraun til að gera raunhæfar rekstraráætlanir um þessar ferjur og þessa flóabáta. Þannig að hér er verið að reyna að koma þessum málum í það horf sem við öll viljum að þau séu í.
    Í öðru lagi vil ég að það komi alveg skýrt fram að auðvitað hljótum við að taka til endurskoðunar hversu lengi og hvort nauðsynlegt sé að reka og halda uppi vissum ferjuleiðum. Ég hef áður sagt að það væri einfaldara mála að takast á við rekstur t.d. Akraborgarinnar sem hv. þm. er kunnugastur ef jafnt og þétt hefði verið greitt af þeim lánum sem hún var keypt fyrir. En það hefur ekki verið gert heldur voru lánin afborgunarlaus þangað til á síðasta ári, ef ég fer rétt með. Þess vegna hvíla á því skipi eitthvað í kringum 100 millj. kr. en ætti auðvitað að öllu eðlilegu að vera búið að greiðast algjörlega upp þannig að væri skuldlaust. Þetta setur málin auðvitað í meiri óvissu en ella. Það er enginn vafi á því.
    Uppi eru hugmyndir um og það hef ég áður sagt hér hvort hagkvæmt þyki að fara í göng undir Hvalfjörð. Auðvitað gefur það auga leið að ekki halda menn uppi ferju við hliðina á göngunum. Ef við tölum um Fagranesið, svo ég minnist á flóabát við Ísafjarðardjúp þaðan sem hinn fyrri þingmaður kemur, þá liggur það líka fyrir að verið er að reyna að veita fjármuni til að bæta vegasamgöngur fyrir vestan en hins vegar hefur mjög dregið úr búskap í Djúpi þannig að unnt er e.t.v. að leysa málin með öðrum og ódýrari hætti. Samgöngumálin eru í stöðugum breytingum en þó eru höfuðáhyggjur okkar nú ekki af þessum tveimur skipum sem þarna var sérstaklega rætt um heldur af hinum skipunum sem eru hluti af samgöngukerfinu, hvað sem öllu öðru líður. Þá er ég að tala um Herjólf og Baldur sem höfuðþungi skuldbindinganna stafar af og við sjáum ekki á þessari stundum hvernig við getum dregið úr en búist er við því á allra næstu árum að ár eftir ár verði meðgjöf ríkisins um hálfur milljarður á ári og það eru auðvitað fjárhæðir sem við viljum ekki sjá í kringum slíkan rekstur þó svo að kaupin á þessum skipum geri það óhjákvæmilegt að við verðum að standa við þessar skuldbindingar á næstu árum.