Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 15:07:04 (7410)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. samgrh. að það hafa fleiri nefndir komið að þessum málum í hv. Alþingi heldur en fjárln. og samgn., það er efh.- og viðskn. einnig, en þetta var athugasemd af minni hálfu til umhugsunar og til umfjöllunar í samgn. hvort eitthvert samráð yrði haft við aðrar nefndir þingsins um það hvernig staðið yrði að þessum fjárveitingum, þ.e. hvaðan fjármögnunin kemur til að reka ferjurnar og flóabátana og auðvitað líka í stofnkostnaðargreiðslurnar og þá er það eðlilegt að það sé fjárln., en ekki meira um það.
    Svo aðeins út af því sem kom upp með Hríseyjarferjurnar þá vil ég bara ítreka það sem ég sagði áðan að mín aðvörun var aðeins sú að það yrði staðið að málum þannig að þegar verið er að leggja af stað með nýtt rekstrarform eins og ég tel að þarna sé á ferðinni, nýir rekstraraðilar koma að málunum, þá eru þessi mál viðkvæm og það þarf að gera það þannig að það skapist um það sem allra best sátt. Það tókst með þessar Hríseyjarferjur, ég undirstrika það að ég veit ekki annað en að um það sé fullt samkomulag og það er vel. En það kann að hafa verið og ekki bara í því tilfelli sem hæstv. ráðherra nefndi með Sæfara, aðra ferjuna, það hefur verið þannig staðið að málum að betur hefði mátt gera, þ.e. það hefði betur verið gengið frá öllum hnútum í upphafi en að þessu var verið að vinna og auðvitað hefði ráðuneyti hæstv. samgrh. fjallað um þau mál ásamt fjrmn. þó það hafi gengið á ýmsu. En við skulum ekki vera að rekja þá sögu og ég hef enga skoðun á því hvers virði þessi skip eru í dag en samkvæmt upplýsingum sem þó komu fram á fundum okkar þingmanna Norðurl. e. með fulltrúum, eignaraðilum þessara skipa og rekstraraðilum, þ.e. Hríseyingunum, kom fram að skipið mundi vera miklu meira virði en 16--18 millj., mig minnir að menn hafi talað um kannski helmingi hærri upphæðir en þetta en það geri ég ekki að frekara umræðuefni núna.