Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 15:42:30 (7413)


     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Að sumu leyti var ræða hv. þm. með venjulegum formerkjum. Hann var mjög undrandi yfir því að ég hef látið í ljósi skoðun á því hvernig til hefur tekist með rekstur ferja og flóabáta á undanförnum árum og telur raunar að með því sé ég að veitast að sér persónulega og telur það sérstaklega ámælisvert að mér skuli koma í hug að hafa uppi slík ummæli ef hann er fjarverandi.
    Nú er það svo um fréttamenn að þeir spyrja ekki hv. þm. að því um hvað þeir vilja fá vitneskju og í öðru lagi er það svo að stjórnmálamenn og sérstaklega ráðherrar verða að una því bæði meðan þeir gegna embætti og raunar síðar líka að um þeirra störf sé fjallað. Í því felst engin persónuleg áreitni. Undarlegt af stjórnmálamanni að halda því fram. Á hinn bóginn er alveg sjálfsagt annað slagið að rifja það upp hvernig staðið hefur verið að málum.
    Út af ummælum hv. þm. er nauðsynlegt fyrir mig að taka tvennt fram. Í öðru lagi er þetta frv. hér flutt vegna þess að það var talið nauðsynlegt að setning nýrra heildarlaga biði haustsins og samgöngumálin í víðara samhengi yrðu tekin upp þá en á hinn bóginn yrði látið við það sitja nú á þessu vori að það litla frv. sem ég mæli hér fyrir yrði samþykkt sem nauðsynlegt er til að Vegagerðin geti tekið yfir málefni ferja og flóabáta.
    Hitt málið sem ég hygg að nauðsynlegt sé fyrir mig að leiðrétta og ég hef gert mjög að umræðuefni er vond skuldastaða ferja og flóabáta og er nauðsynlegt til að fylla upp í þá mynd að vekja athygli á nokkrum atriðum.
    Ef við byrjum á þeirri ferju sem hér er næst, Faxaflóaferjunni Akraborg, þá var hún keypt hingað til lands á árinu 1982 og aflað til þess nauðsynlegra lánsheimilda hjá ríkissjóði. Um það segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar: ,,Þar sem félagið hefur ekki haft bolmagn til að standa undir greiðslum af lánum sem tekin voru vegna kaupanna hefur hlaðist upp vanskilakostnaður hjá Ríkisábyrgðarsjóði. Stór hluti af skuldarhöfuðstól félagsins við ríkissjóð hefur verið vegna áfallinna dráttarvaxta.`` Um skuldir Akraborgar er það síðan að segja að Akraborg skuldaði á árinu 1987 72,4 millj. kr., 1988 79,5 millj. kr., 1989 92,7 millj. kr., 1990 137 millj. kr. og 1991 á síðasta ári forvera míns í 141,3 millj. kr.
    Á því herrans ári hvíldu með öðrum orðum 141 millj. kr. á Akraborginni en samkvæmt fjárlögum fyrir það ár var ekki varið einni einustu krónu til stofnkostnaðar vegna Akraborgar. Það var varið 1 millj. kr. á árinu 1991 til stofnkostnaðar vegna Mjóafjarðarbáts en ekki einni einustu krónu til Akraborgar og höfðu þó skuldir Akraborgar vaxið frá árinu 1989 úr 92,7 millj. kr. í 141,3 millj. kr.
    Ef ég tek með sama hætti hvernig skuldastaða flóabáta hefur vaxið í heild sinni frá árinu 1987 --- ég vil taka fram að á þeim árum voru sjálfstæðismenn samgrh., þannig að varla er það nú sérstök árás á forvera minn sem er í Alþb., þá var það svo að á árinu 1987 að skuldir ferja og flóabáta voru samtals 135,5 millj. Á sama ári var varið til stofnkostnaðar samkvæmt fjárlögum 2,4 millj. kr., rétt 1,5%. Á árinu 1988 hækkuðu skuldir á ferjum upp í 285 millj. kr. eða meira en tvöfölduðust. Þá voru framlög ríkisins til stofnkostnaðar lækkuð niður í 1,1 millj. kr. Á árinu 1989 varð enn stökk. Þá hækkuðu skuldir upp í 472 millj. kr., framlag á fjárlögum til stofnkostnaðar var 2,1 millj. kr. Á árinu 1990 hækkuðu lánin upp í 603 millj. kr., þá voru framlög til stofnkostnaðar 8,4 millj. kr. Á árinu 1991 voru skuldir komnar upp í 1,6 milljarða kr. Samkvæmt fjárlögum voru ætlaðar 7 millj. kr. til stofnkostnaðar vegna skulda á flóabátum sem námu 1,630 milljörðum kr. Með fjáraukalögum fékk ég fram nokkra leiðréttingu þannig að til stofnkostnaðar fóru á árinu 1991 71,9 millj. kr. en voru 7 millj. kr. á fjárlögum. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir 119 millj. kr. Þá eru skuldirnar komnar upp í 2,4 milljarða kr. samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar.
    Það má auðvitað segja að þessi miklu lán eru öll tekin með samþykki Alþingis, ég hef ekki neitað því. En ef við horfum t.d. á lántökuheimildir vegna hins nýja Herjólfs þá voru það 100 millj. kr. árið 1988, 100 millj. kr. árið 1989, 500 millj. kr. árið 1990 og 500 millj. kr. árið 1991 og þá var skrifað undir. Á sl. ári var nauðsynlegt að leita enn nýrrar lántökuheimildar upp á 400 millj. kr. vegna kaupa á þessu skipi og er þá staðan gagnvart ríkissjóði 1,5 milljarðar kr. Ef við horfum á skip eins og Sæfara, þá standa sakir þannig þar að á árinu 1989 var óskað eftir lánsheimild að upphæð 35 millj. kr. Nýrri lánsheimild ári síðar upp á 40 millj. kr. Nýrri lánsheimild ári síðar upp á 23 millj. kr. Staðan gagnvart ríkissjóði á sl. ári var 108 millj. kr. Þannig að það hefur verið höfð sú aðferð uppi að náð hefur verið í lánsheimild eftir lánsheimild ár eftir ár og samgönguráðherrar hafa ekki haft svigrúm eða kraft til þess að mæta þeim aukna fjárfestingarkostnaði og vaxtakostnaði sem þessu hefur fylgt. Afleiðingin er með öðrum orðum sú að á árinu 1992 er 119 millj. kr. varið til stofnkostnaðar.
    Með öðrum orðum er ég ekki að halda því fram að forveri minn hafi verið eitthvert sérstakt dæmi að þessu leyti sem samgrh., ég sagði í ræðu minni fyrr í dag að þessi mál hefðu verið á margra höndum, þingsins, samgrn. og fjmrn., og nú væri nauðsynlegt að koma ábyrgðinni niður á einn stað. Ég vil líka segja að ég gerði þessi mál ekki að sérstöku umræðuefni í ræðu minni fyrir frv. heldur spunnust umræðurnar út af athugasemdum þingmanna sem tóku til máls.
    Ég hygg að óhjákvæmilegt sé fyrir okkur sem berum hagsmuni dreifbýlisins fyrir brjósti að við fáum öruggar tekjur til þess að koma í veg fyrir að þessi skuldasöfnun haldi áfram í þessum þætti samgöngumálanna og ég vona að við berum gæfu til þess að finna lausn á þeim málum.