Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 16:02:02 (7416)

     Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Við fjórir nefndarmenn í utanrmn. skilum séráliti um þetta mál og leggum þar til að afnám viðskiptabannsins verði bundið því að fyrir liggi ákvörðun um lýðræðislegar kosningar í Suður-Afríku. Ég kom að þessu máli á sínum tíma þegar viðskiptabannið var sett á og við urðum, eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hlutans, við samþykkt Sameinuðu þjóðanna. Sömuleiðis urðum við fyrir miklum þrýstingi frá Afríska þjóðarráðinu sem lagði mikla áherslu á það að þjóðir sýndu samstöðu gegn mannréttindabrotum með því að setja á viðskiptabann.
    Ég lít á viðskiptabann sem algjört neyðarúrræði og vitanlega má ekki setja það á nema að fullnægðum ákvæðum þjóðaréttar. Staðreyndin er því miður sú að viðskiptabann hefur raunar mjög sjaldan borið þann árangur sem að er stefnt. Við settum á viðskiptabann fyrst og fremst sem táknræna athöfn til stuðnings við þann meiri hluta í Suður-Afríku sem varð að þola mikil mannréttindabrot og við vildum með því sýna afstöðu okkar til slíks framferðis.
    Það er rétt að margt hefur batnað í Suður-Afríku og sem betur fer virðist í uppsiglingu samkomulag og viðræður fara fram á milli stjórnvalda og þess meiri hluta sem þar hefur verið undirokaður. Því miður fer því víðs fjarri að ofbeldisverkum hafi linnt eins og nýleg dæmi og fréttir bera vitni um. Að vísu má segja að það sé ekki að undirlagi stjórnvalda þótt lengi megi deila um framgang þeirra í þeim málum.
    En það sem hefur ráðið fyrst og fremst afstöðu okkar til þess að vilja fara okkur hægt í þessu máli er samþykkt sem gerð var á ráðstefnu Afríska þjóðaráðsins sem var haldin í Jóhannesarborg dagana 19.--21. febr. sl. Þar var mikið fjölmenni, m.a. mikið fjölmenni erlendra gesta og þar var einróma farið fram á að viðskiptabannið yrði ekki afnumið fyrr en, eins og sagði þar í samþykktinni, ,, . . .  tilkynnt hefði verið samþykkt dagsetning kosninga``. Með þetta í huga sem við leggjum til á sérstöku þskj. að 2. gr. orðist svo:
    ,,Lög þessi öðlast gildi þegar samkomulag liggur fyrir um lýðræðislegar kosningar í Suður-Afríku.``
    Samkvæmt því sem mér hefur verið tjáð er gert ráð fyrir að það geti orðið mjög fljótlega.
    Að sjálfsögðu eru þarna ýmsir viðskiptahagsmunir margra þjóða í húfi, þeir eru ekki miklir hjá okkur þó eflaust megi gera ráð fyrir því að menn geti haslað sér þarna völl og vonandi verður það svo. Við teljum hins vegar að þegar um slík mannréttindamál er að ræða verði þeir að víkja og ekki síst þegar menn eru að ná þeim árangri sem að var stefnt þó ég sé þeirrar skoðunar að það sé ekki nema að litlu leyti fyrir tilstuðlan viðskiptabannsins.

    Mér sýnist óþarft að hafa um þetta fleiri orð. Það er rétt sem hv. frsm. meiri hlutans rakti að mjög margar þjóðir hafa eða eru að afnema viðskiptabannið, Svíar hafa að vísu ekki enn þá gert það og það er þar til umræðu. Kanadamenn hafa verið mjög ákveðnir í því að afnema það ekki strax og hafa sinnt einmitt þeim tilmælum sem við teljum rétt að verða við og ég vísaði til áðan frá ráðstefnu Afríska þjóðarráðsins. Einnig er athyglisvert að afnám þessa banns hefur verið bundið vissum skilyrðum hjá ýmsum þjóðum eins og að sjálfsögðu bann við flutningi vopna en líka olíu og fjárfestingu og þeir hlutir eru núna í meðferð. Okkur sýnist því að engin hætta felist í því og reyndar í samræmi við upphaflega afstöðu okkar að binda afnámi við slíku skilyrði eins og ég nefndi áðan. Hér var þetta bann sett á, eins og ég sagði, til að sýna vissa samstöðu með Afríska þjóðarráðinu og þegar Afríska þjóðarráðið fer fram á að þeirri samstöðu verði fram haldið með því að afnema ekki viðskiptabannið teljum við rétt að verða við því. Því leggjum við til brtt., sem ég hef þegar lýst, og kemur fram á þskj. 822.