Bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 16:19:37 (7419)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir þau orð formanns utanrmn. að hér ber ekki mikið á milli efnislega. Það er heldur lakara að mönnum skyldi ekki takast að verða sammála og afgreiða málið í samkomulagi úr hv. utanrmn. ( BBj: Það komu nýjar upplýsingar fram eftir að málið fór úr nefndinni.) Þá er upplagt að nefndin taki málið til sín á nýjan leik og skoði það á milli 2. og 3. umr. ef eitthvað er nýtt, nýjar upplýsingar eða breyttar forsendur og væntanlega stendur ekki á formanni nefndarinnar að hlutast til um það. Þess vegna er hægt að kalla aftur brtt. og afstýra því að menn gangi efnislega til atkvæðagreiðslu fyrr en málið hefur verið rætt á nýjan leik.
    Ef ég man rétt var allgóð samstaða um það, gott ef bara ekki einróma samstaða á Alþingi á sínum tíma, þegar lögin um viðskiptabann á Suður-Afríku og Namibíu voru loksins sett á, en við Íslendingar vorum því miður í hópi allra síðustu þjóða til að grípa til slíkra ráðstafana. Sömuleiðis var samstaða um að fella niður viðskiptabannið á Namibíu þegar aðstæður höfðu breyst í því landi og mér hefði fundist skemmtilegast ef málinu hefði þá lokið þannig að menn hefðu síðan orðið sammála um það hvernig viðskiptabannið yrði fellt niður gagnvart Suður-Afríku þegar það væri tímabært. Við 1. umr. málsins nefndi ég þann möguleika að við færum svipaða leið og sumar hinna Norðurlandaþjóðanna að fella bannið niður í áföngum eða þannig að við héldum einhverjum táknrænum hlutum viðskiptabannsins þangað til enn betur hefði miðað í lýðræðisátt í Suður-Afríku. Þetta er sú leið sem sumar hinna Norðurlandaþjóðanna hafa farið, þ.e. að afnema t.d. fyrst bann við viðskiptum með vörur og þjónustu en viðhalda banni á fjárfestingum og e.t.v. einhverjum afmörkuðum þáttum viðskipta, vopnum eða olíuvörum eða einhverju slíku og þannig gætu ýmsar leiðir komið til greina til þess að vera í takt að þessu leyti að menn drægu táknrænt úr viðskiptatakmörkunum til að sýna velþóknun sína á þróun í rétta átt en tækju ekki það skref, sem margar þjóðir og sérstaklega Norðurlandaþjóðirnar hafa verið hikandi við, að afnema viðskiptabannið að fullu fyrr en betur væri búið að innsigla samkomulag kynþáttanna um kosningar og framkvæmd umbótanna á stjórnskipun landsins. Mér finnst ekki til mikils mælst miðað við þær upplýsingar sem formaður utanrmn. kom hér með, að vísu úr dönsku blaði, við skulum ætla að þær séu áreiðanlegar, að fyrir liggi tímasett áætlun þar sem verulegir atburðir muni gerast í maí og júní í rétta átt í þessum efnum að haga þá gildistöku laganna með það að leiðarljósi ef það má verða til samkomulags um afgreiðslu málsins. Þetta kann ýmsum að þykja smámunasemi og ekki stórt mál á hvorn veginn þetta fer, hvort lögin öðlist þegar gildi eftir að þetta samkomulag liggur fyrir sem vonandi verður innan skamms. Ég held að það sé efnislega rétt

og í samræmi við þær áherslur sem menn hafa með þessu táknræna viðskiptabanni Íslendinga sem það hefur auðvitað fyrst og fremst verið alla tíð að menn standi að þessu á þennan hátt. Ég leyfi mér enn að vona að samstaða geti tekist um afgreiðslu málsins á þessum nótum.