Eftirlit með skipum

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 16:24:55 (7421)

     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta til laga um eftirlit með skipum var lagt fram á síðasta Alþingi og var þá til meðferðar og athugunar í hv. samgn. en hlaut eigi afgreiðslu. Frv. var lagt fram að nýju á þessu Alþingi og hefur samgn. athugað frv. áfram og fjallað um það á mörgum fundum. Á fundi nefndarinnar komu Páll Hjartarson frá Siglingamálastofnun ríkisins og Ólafur Steinar Valdimarsson, ráðuneytisstjóri í samgrn. Nefndinni bárust umsagnir frá Sambandi ísl. kaupskipaútgerða, Sambandi ísl. tryggingafélaga, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Fiskifélagi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, siglingadómi og fjmrn.
    Í þeim umsögnum, sem nefndin hefur fengið er að meginhluta komist að þeirri niðurstöðu að frv. sé til verulegra bóta frá gildandi lögum og í heild má segja að í þessum umsögnum séu gerðar miklar athugasemdir við frv. eins og það liggur fyrir.
    Samgn. hefur afgreitt málið frá sér og leggur til að það verði samþykkt með nokkrum breytingum sem fluttar eru tillögur um á þskj. 957 og stendur nefndin í heild að þeim breytingum en þrír nefndarmanna, þeir Árni M. Mathiesen, Stefán Guðmundsson og Guðni Ágústsson skrifa þó undir nál. með fyrirvara.
    Í brtt. nefndarinnar er lagt til að á 6. gr. verði gerð sú breyting að við 2. mgr. bætist málsliður og 2. mgr. orðist svo:
    ,,Ráðherra setur reglur um hæfniskröfur er þeir sem hanna og smíða skip skulu uppfylla. Þær skulu m.a. taka mið af réttindum hlutaðeigandi iðngreina.``
    Sú breyting sem í þessu felst er það að í síðari málslið er vísað til þess að þegar ráðherra setur reglur sem fara skal að við hönnun eða smíði skipa þá skuli tekið mið af réttindum þeirra iðngreina sem í hlut eiga og er það eðlilegt að þannig sé að verki staðið.
    Í 8. gr. frv. er gerð brtt. af hálfu nefndarinnar þannig að í stað 2. og 3. mgr. komi ný málsgrein er orðist svo:
    ,,Eigi má flytja inn fiskiskip sem er 15 ára eða eldra.``
    Í þessari grein leggur nefndin til að gerð sé breyting. Í gildandi lögum var eigi heimilt að flytja inn skip hverju nafni sem nefndist ef það væri 12 ára eða eldra. Í frv. eru veruleg frávik frá þessu sem er í gildandi lögum en meginreglan er þó sú í frv. sjálfu eins og það var lagt fram að miðað skyldi við 15 ár. Eftir allmiklar umræður og athuganir á málinu komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ástæðulaust væri að hafa í lögum aldursmörk að því er varðaði skip nema að því er tekur til fiskiskipa. Við höfum kynnst því á undanförnum þingum, þar á meðal á þessu þingi að þurft hefur að grípa til lagasetningar, bæði fyrir pramma, björgunarbát og áður við fleiri slík skip til þess að fara fram hjá þessu lagaákvæði sem er í gildandi lögum. Það er skoðun nefndarinnar að höfðu samráði við tæknimenn um þessi efni að sjóhæfni skipa fari hvergi nærri alltaf eftir aldri þeirra og er þess vegna lagt til að þetta aldurshámark gildi einvörðungu um fiskiskip.
    Siglingamálastofnun ríkisins hefur fallist á þessi sjónarmið sem komu fram í nefndinni og segir í umsögn til nefndarinnar að stofnunin fallist á sjónarmið varðandi það að aldursákvæðum verði sleppt í lögum fyrir önnur skip en fiskiskip en þar eru settar fram röksemdir fyrir að halda inni 15 ára aldursákvæðum. Þær röksemdir eru m.a. fólgnar í því að við þennan aldur þurfa skip að fara í gegnum ítarlega skoðun og viðgerð, a.m.k. þau skip sem eru í flokki hjá hinum ýmsu flokkunarfélögum. Hér er oft um að ræða dýrar viðgerðir og tímafrekar og því getur orðið álitamál einmitt um þessi aldursmörk hvort skip skuli keypt til landsins eða ekki og því er þessi aldursregla valin en ekki einhver önnur að þá skal fara í þessa ítarlegu skoðun og viðgerð skipa.
    Oft tíðkast að áður en slík skoðun og viðgerð fer fram kjósa eigendur skipa fremur að selja skip sitt í stað þess að leggja í þessa kostnaðarsömu aðgerð jafnvel þótt lægra verð fáist fyrir skipin. Ef þeirri aldursskoðun og viðgerð er lokið eru skipin aftur á móti á hinn bóginn væntanlega í betra ástandi og þá dýrari. En lögákveðin aldursmörk og viðgerðir þeim samfara eru meginástæðan fyrir því að þessi aldursviðmiðun er valin að því er varðar fiskiskip en ekki einhver önnur.
    Rétt er að geta þess að þær raddir heyrðust innan nefndarinnar að ástæða væri til þess að afnema öll aldursmörk en það varð að samkomulagi að miða að þessu sinni við þau mörk sem hér hafa verið tilgreind að því er varðar fiskiskip en afnema öll aldursmörk að því er varðar önnur skip, báta og pramma sem áður hefur verið í lögum. Þá tel ég að þessi brtt. sé þar með fullskýrð.
    Í þriðja lagi er lögð til sú breyting á 9. gr. frv. að orðið ,,yfirvélstjóri`` falli brott, þ.e. að yfirvélstjóri falli brott úr hópi þeirra sem ábyrgð ber á því að lögskipaðar skoðunaraðgerðir fari fram á skipum. Í núgildandi lögum er þessi ábyrgð á herðum eiganda skips, útgerðarmanns og skipstjóra og þykir nefndinni ekki ástæða til að fjölga í þeim hópi sem ber ábyrgð á því að lögskipuð skoðun skuli fara fram en hún mun að jafnaði fara fram einu sinni á ári.
    Við greinina er síðan bætt í brtt. nefndarinnar að um starfsskyldur yfirmanna við skoðunargerð og verkaskiptingu fari samkvæmt III. kafla sjómannalaga nr. 35/1985 þar sem vikið er að því hvaða skyldur hinir ýmsu yfirmenn skips bera við slíka lögskipaða skoðun á skipi. Þar með telur nefndin að þess sé fyllilega gætt að ekki sé gengið á hlut neinna af yfirmönnum skipsins og telur raunar að ábyrgð skipstjóra á lögskipaðri skoðun sé næg til þess að tryggt sé að hún fari fram. Aðrir yfirmenn skips hljóti þá að knýja á við skipstjóra að hann gæti þess að lögum sé framfylgt.
    Þá er í fjórða lagi lögð til breyting á 2. mgr. 13. gr. um framkvæmd skyndiskoðunar. Að óbreyttu frv. mætti ætla að varðskip Landhelgisgæslunnar yrði að leita leyfis hjá Siglingamálastofnun í hvert skipti sem varðskipsmenn létu fram fara skyndiskoðun á hafi úti. Miðað við þá breytingu, sem kemur fram í brtt. nefndarinnar á þskj. 957 er ákveðið að sérstakt samkomulag skuli vera á milli þessara stofnana, þ.e. Siglingamálastofnunar ríkisins og Landhelgisgæslu Íslands um framkvæmd skyndiskoðunar. Þar er lagt til að stofnanirnar semji um tilhögun á slíku eftirliti framvegis.
    Fimmta brtt. er við 35. gr. og varðar gildistöku frv. og þarfnast ekki skýringa.
    Í sjötta lagi er lagt til að við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um meðferð þeirra mála sem þingfest hafa verið fyrir siglingadómi fyrir gildistöku laga þessara.
    Í frv. er lagt til að siglingadómur verði lagður niður, þess í stað verði mál rekin fyrir almennum dómstólum. Þetta ákvæði til bráðabirgða er til þess að taka allan vafa um það að þau mál, sem höfðuð hafa verið fyrir siglingadómi þegar lögin taka gildi, skuli vera þar til meðferðar áfram og þeim lokið fyrir þeim dómi.
    Rétt er að taka fram að í mörgum umsögnum um málið er mælt með því og talið eðlilegt, sem fram kemur í frv., að leggja siglingadóm niður. Hins vegar var ekki talið til bóta af hálfu umsagnaraðila úr siglingadómi en niðurstaða nefndarinnar var að láta ákvæði frv. um þetta efni standa að þessu leyti en bæta aðeins við þessu ákvæði til bráðabirgða til að taka af tvímæli um þau mál sem fyrir dómnum liggja þegar frv. tekur gildi.
    Ég tel, virðulegi forseti, að ég hafi þá skýrt starf nefndarinnar og brtt., sem nefndin leggur fram á þskj. 957, en nefndin leggur til, að vísu þrír nefndarmanna með fyrirvara, að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem á því þskj. greinir.