Eftirlit með skipum

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 16:56:04 (7425)

     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem komið hefur fram hjá hv. formanni samgn. og hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að þessi mál voru talsvert rædd í nefndinni. Hins vegar varðandi það atriði sem hv. þm. Stefán Guðmundsson gerir fyrirvara um, þá talar hann um að eitthvað búi að baki hugmyndum meiri hlutans um það að halda þessari grein óbreyttri frá gildandi lögum. Auðvitað býr ekkert að baki. Menn telja hins vegar eins og fram kom í orðum hv. formanns nefndarinnar að það sé óþarfi að fjölga þeim aðilum sem ábyrgðin hvílir á og það kom glögglega fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar að ábyrgð hvílir eftir sem áður á vélstjórum um meðferð þeirra hluta sem við á. En ég efast nú ekki um að hæstv. samgrh. er ánægður með að menn skuli verja mál hans af jafnmiklum þrótti og hv. þm. Stefán Guðmundsson gerði hér áðan og mun hann áreiðanlega frétta af því. En það er auðvitað rétt að við bætum okkur ekki mikið með að ræða þetta mál frekar.
    Ástæðan fyrir því að ég tek til máls er að ég vil að það komi fram að ágreiningur var helstur í nefndinni um aldursákvæðin og ég tel málið mjög til bóta eins og samkomulag tókst um í nefndinni. Ég tek undir þetta nál. en vil þó að það komi fram að ég tel að það eigi að fella úr gildi aldursákvæði fiskiskipa jafnt sem annarra og að skoðun skeri úr um haffæri skipa. Engin aldursákvæði eru í gildi varðandi atvinnutæki önnur, svo sem bifreiðar eða flugvélar hvað þetta varðar, heldur er það fyrst og fremst skoðun sem sker úr.
    Þannig er að mörg skip eru hér á landi sem eru eldri en 15 ára og hafa að verulegu leyti verið endurbyggð og halda sínu gildi þrátt fyrir að vera komin til ára sinna. Annað er það sem vænta má að verði á næstu árum, þess er að vænta að Íslendingar leiti fanga e.t.v. á fjarlæg mið og þannig muni hugsanlega íslensk skip verða skráð a.m.k. tímabundið í öðrum löndum. Ef svo verður og fiskiskip verða komin yfir þetta 15 ára aldurstakmark sem lagt er til, þá þarf eftir sem áður að flytja frv. til laga ef menn óska þess að það skip verði að nýju skráð hér á landi.