Eftirlit með skipum

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 17:02:01 (7428)


     Árni M. Mathiesen :
    Frú forseti. Eins og fram kemur í nál. samgn. um það frv. sem hér um ræðir, frv. til laga um eftirlit með skipum, þá skrifa ég undir nál. með fyrirvara. Ég vil aðeins gera grein fyrir því hvers vegna ég geri það og ástæðan er breytingin sem lagt er til að gerð sé á 8. gr., þ.e. breytingar þar á 2. og 3. mgr. þar sem stendur að eigi megi flytja inn fiskiskip sem eru 15 ára eða eldri. Það er mín skoðun að ekki sé nógu langt gengið í breytingum á þessari grein og að það eigi ekki að vera nein aldursmörk á þeim skipum sem flutt eru til landsins, það eigi einungis að gera strangar kröfur til þess útbúnaðar og til ástands skipanna sem til landsins eru flutt og það sé það sem eigi að ráða hvaða skip fá leyfi til þess að koma hingað til lands en ekki hversu gömul þau eru. Ég tel að aldurinn hafi lítið um það að segja hvert ástandið er og það sé miklum mun öruggara og farsælla að það sé ástandið eitt sem segir til um það hvort skipin fái að koma hingað til landsins og ég treysti Siglingamálastofnun fullvel til þess að framfylgja slíkum reglum.
    Ég mun hins vegar styðja þetta frv. og þessa breytingu sem hér er lögð til þar sem ég geri ekki ráð fyrir því að það sé hægt að ná fram frekari breytingum, en sú breyting sem nefndin leggur til er þó til mikilla bóta að mínu mati frá því sem ástandið er í dag.