Vegur milli Þingvalla og Hvalfjarðar um Leggjabrjót

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 17:19:26 (7431)

     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 881 um gerð vegar milli Þingvalla og Hvalfjarðar um Leggjabrjót. Flm. ásamt mér er Guðni Ágústsson.
    Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að kanna möguleika á gerð varanlegs vegar á hinni gömlu þjóðleið um Leggjabrjót milli Þingvalla og Hvalfjarðar.``
    Í grg. segir svo:
    ,,Allt frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á þessa öld var fjölfarin leið milli Þingvalla og byggðanna norðan Hvalfjarðar. Var leiðin kennd við Leggjabrjót sem er urðarkast á miðjum fjallveginum. Um Leggjabrjót lá leið manna þegar farið var til Alþingis og að Skálholti. Leiðin geymir spor liðinna kynslóða sem fóru um veginn, bæði í skóla og til biskupssetursins í Skálholti, til Alþingis og í öðrum erindum. Leiðin um Leggjabrjót tengdi saman byggðir Hvalfjarðar og Suðurlands, einkum Þingvallasveit.
    Um Leggjabrjót eru aðeins 20 km frá Botnsskála í Hvalfirði og að Þingvöllum. Hér er um stutta en afar fagra og söguríka leið að ræða. Oft hefur verið rætt um að leggja akfæran veg um Leggjabrjót og hefur áhugi í þeim efnum farið vaxandi á síðustu árum. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps hafa ályktað um málið. Og í tillögu að svæðisskipulagi sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar, sem nú er á lokastigi, er lagt til að gerð verði ,,akfær vegtenging um Leggjabrjót upp úr Botnsdal`` og að Þingvöllum.
    Vegur um Leggjabrjót hefði geysimikla og jákvæða þýðingu í sambandi við ferðamál og ferðamannaþjónustu. Með tilkomu vegar um Leggjabrjót mundi opnast nýr Þingvallahringur sem yrði vinsæll og fjölfarinn og mundi skapa ný atvinnutækifæri í ferðaþjónustu bæði í Hvalfirði og á Akranesi. Þá yrði stutt af þessum vegi að hæsta fossi landsins, Glym í Botnsá, sem er sérstakt náttúruundur.
    Fram hafa komið hugmyndir um framtíðarútivistar- og skíðasvæði í Botnssúlum fyrir Akranes, Borgarnes og höfuðborgarsvæðið, enda er Bláfjallasvæðið nú þegar næstum fullnýtt. Í Botnsdal og Botnssúlum er kjörið svæði til útivistar og heilsuræktar. Botnsdalur er skjólgóður dalur, þar er náttúrufegurð mikil og jarðhiti. Þar er því kjörið að byggja upp aðstöðu og þjónustu í tengslum við útivistar- og skíðasvæði í Botnssúlum. Forsenda þess er bættar samgöngur og akfær vegur um Leggjabrjót. Fjárfesting í slíkum vegi mundi verða arðbær og hagkvæm, skapa nýja möguleika og ný atvinnutækifæri í ferðaþjónustu og heilsurækt og tengja saman að nýju hinar fögru byggðir Árnessýslu og syðri hluta Borgarfjarðar.``
    Virðulegi forseti. Þetta er að sjálfsögðu ekki forgangsverkefni í vegamálum á Vesturlandi en mér finnst vera kominn tími til að það verði gerðar kostnaðaráætlanir um þessa framkvæmd og framkvæmdaáætlanir og eins og kemur fram í grg. þá er þetta atvinnuskapandi framtak og ég vona að þessi þáltill. fái jákvæða umfjöllun og verði tekin fyrir í hv. samgn.