Hætta af sjávarágangi

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 17:28:34 (7434)

     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þál. um úttekt á hættu af sjávarágangi á þskj. 888. Tillöguna flyt ég ásamt Jóni Kristjánssyni. Hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera úttekt á hættu sem kann að stafa af sjávarágangi hérlendis og gera tillögur um hvernig við er hægt að bregðast, m.a. hvernig verja skuli núverandi mannvirki og hvaða reglur skuli gilda um byggingu nýrra mannvirkja með tilliti til breytinga sem vænta má á sjávarmáli.``
    Í grg. kemur fram að tjón á mannvirkjum af völdum sjávarágangs eru ekki ný hér á landi og mesta flóð sem vitað er um Básendaflóðið sem var fyrir u.þ.b. tveimur öldum. Ástæðan fyrir slíku tjóni er að sjálfsögðu sú að mannvirki hafa verið reist of nálægt flóðfari sem hafaldan getur náði til í mestu aftökum. Ástæða þess að byggja svo nálægt sjávarmáli var að sjálfsögðu yfirleitt ekki skortur á landrými hér á landi heldur var hagkvæmt að sem stystur vegur væri í byggingar sem notaðar voru vegna sjósóknar eða flutninga á sjó þegar engin tækni til flutnings á landi eða ferða þar var fyrir hendi.
    Þess vegna eru mannvirki í hættu á allmörgum stöðum á landinu og það hefur verið reynt að minnka þá hættu með því að byggja sjóvarnargarða sem víða hafa bjargað mannvirkjum frá tjóni, en annars staðar hefur ekki verið nóg að gert svo að tjón hefur af orðið.
    Nú eru aðstæður hins vegar gerbreyttar og það virðist því ekki ástæða til þess þegar ný mannvirki eru reist önnur en hafnargerð að vera með þau svo nálægt sjó eins og áður var. Það er líka nauðsynlegt að hafa það í huga að vísbendingar eru um það að landsig sé hér nokkuð viðvarandi og líkur benda til að það muni halda áfram. Nákvæmar mælingar eru ekki margar fyrir hendi en ýmsar breytingar á landi, t.d. í nágrenni Reykjavíkur sem hægt er að sjá af frásögnum fyrri tíma að hafi orðið hér, benda eindregið í þessa átt. Hafnamálastofnun er nú í samvinnu við Raunvísindastofnun að gera nokkurt átak til að ganga frá nákvæmum búnaði til mælinga á nokkrum stöðum þó að fjárskortur setji því skorður. Það hlýtur að taka nokkurn tíma að fá örugga niðurstöðu um það hvað þessar breytingar gerast hratt, hvað sjávarmálið hækkar ört en fljótlega ætti þó að vera hægt að sjá betur hvert stefnir.
    Með tilliti til þessara staðreynda virðist það vera fjarstæða að reisa ný mannvirki mjög nálægt eða neðarlega miðað við sjávarmál. Í ljósi reynslu síðustu ára þar sem stórar byggingar sem eiga að standa um aldir ná langt niður fyrir stórstraumsflóðfar, virðist augljóst að nú þegar þyrfti að setja reglur sem stuðluðu að því að menn færu varlega í framkvæmdir á þennan hátt.
    Eins og ég sagði í upphafi er þetta því raunverulega tvíþætt: Annars vegar að gera úttekt á stöðunni með mannvirki eins og þau eru í dag og þeirri hættu sem þeim er búin. Við höfum nú síðast á þessum vetri og sl. ári heyrt frásagnir af því að við suðurströndina hefur land verið að eyðast af einhverjum ástæðum, e.t.v. þrálátra vinda, og mannvirki í hættu af þeim sökum. Þetta er æskilegt að vita sem best um þannig að menn geri sér grein fyrir því hvaða verkefni þarna eru fyrir hendi til þess að verjast þessari hættu. Hins vegar er það svo með þau mannvirki sem verða byggð í náinni framtíð að það verði að hafa það í huga að mörg þeirra a.m.k. eiga að standa í áratugi og aldir og því má ekki taka óþarfa áhættu við staðsetningu þeirra.
    Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og samgn. til athugunar.