Ferðaþjónusta

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 17:34:57 (7435)

     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ferðaþjónustu. Þetta er mál nr. 524 á þskj. 882. Það er rétt að hafa örstuttan aðdraganda að því hvers vegna þetta mál er nú flutt hér á nýjan leik en hér er á ferðinni endurflutningur á frv. sem flutt var sem stjfrv. á löggjafarþinginu 1990--1991. Það var þá gert í kjölfar á viðamiklu nefndastarfi að ferðamálum sem hafði skilað m.a. þeim afrakstri sem hér getur að líta í frv. og einnig till. til þál. um stefnumörkun á sviði ferðamála.
    Sú er ástæða þess að ég kaus að endurflytja þetta frv. nú til að koma ferðamálum á dagskrá að í fyrirspurnatíma á Alþingi fyrir nokkru síðan upplýsti hæstv. samgrh. að ekki væri í vændum frumvarpsflutningur af hans hálfu varðandi málefni ferðaþjónustunnar og fylgdi sú skýring af hálfu hæstv. ráðherra að ekki hefði náðst samkomulag í hæstv. ríkisstjórn milli sín og fjmrh. um útgjaldahlið slíkar endurskoðunar laga um ferðamál. Þá upplýsti hæstv. ráðherra enn fremur að það væri ekki á dagskrá af sinni hálfu að endurflytja eða nýta með þeim hætti þetta frv. eða þau þingmál sem lögð voru fram á sviði ferðamála í tíð fyrri ríkisstjórnar. Af þeim sökum hef ég ákveðið að endurflytja þetta frv. óbreytt eins og það kom frá þeirri nefnd er starfaði að ferðamálum á árunum 1990--1991 og skilaði þessu verki. Ég tel nauðsynlegt að koma ferðamálunum á dagskrá þingsins og draga athyglina að þörfinni á því að endurskoða í heild sinni lagamálefni ferðaþjónustunnar. Það er löngu tímabært og á ýmsa annmarka núgildandi löggjafar hefur verið bent og menn rækilega rekið sig á það í starfseminni. Eitt af mörgu sem þar má nefna eru gildandi lagaákvæði um tryggingar ferðaskrifstofa og sú einhæfa flokkun sem samkvæmt gildandi lögum ríkir um þá sem sinna mismunandi starfsemi á sviði ferðamála eða ferðaþjónustureksturs og ferðamiðlunar. Þar er í raun og veru orðið um fullkomlega úrelt lagafyrirmæli að ræða sem standa að nokkru leyti fjölbreytni og grósku og möguleikum minni rekstraraðila fyrir þrifum.
    Frv. þetta skiptist í nokkra kafla. Í I. kafla er markmið þess rakið. Í II. kafla er vikið að stjórn ferðamála, ákvæði um ferðaþing, Ferðamálaráð og þar fram eftir götunum. Í III. kafla er svo vikið að tekjustofnum Ferðamálaráðs eða fjármögnun ferðamála. Í IV. kafla að ferðamiðlun. Í V. kafla eru felld inn í þetta frv. þau ákvæði sem nú eru í sérlögum um veitinga- og gististaði, en þetta frv. felur m.a. í sér það nýmæli að helstu lagaákvæði ferðaþjónustunnar eru sameinuð á einum stað, en eins og kunnugt er gilda nú um þetta mismunandi lög, annars vegar lög um skipan ferðamála, hins vegar lög um veitinga- og gististaði og reyndar fleiri lagaákvæði sem eiga við en eru á mismunandi stöðum í lagasafninu. Í VI. kafla er fjallað um eftirlit og upplýsingaskyldu og síðan kemur kafli með ýmsum ákvæðum.
    Tímans vegna fer ég mjög hratt yfir sögu en ég hef þegar getið um aðdraganda frv. og ætla þá að leyfa mér að nefna í örfáum orðum helstu nýmæli þess miðað við gildandi lög þannig að menn geti þá glöggvað sig á því í hverju þau felast.
    Það má segja að í fyrsta lagi sé nýmæli sá markmiðskafli sem lögunum fylgir og er reyndar samhljóða markmiðskafla í till. til þál. um stefnumörkum í ferðamálum þar sem reynt er að skilgreina og setja ferðaþjónustunni markmið.
    Í öðru lagi er kveðið á um ferðaþing sem ráðgefandi samkomu um málefni ferðaþjónustunnar. Þarna er verið að reyna að hefja ferðaþjónustuna á sambærilegan stall og aðrar atvinnugreinar sem flestar eiga sín árlegu þing af þessu tagi sem hafa vissu hlutverki að gegna, eru í öllu falli umræðuvettvangur viðkomandi starfsmanna og ráðamanna í viðkomandi grein. Í sumum tilvikum hafa þau jafnvel viðameira hlutverki að gegna. Nægir að nefna búnaðarþing, fiskiþing, iðnþing o.s.frv. og hugsunin sú að með þessu væri undirstrikað að ferðaþjónustan væri atvinnugrein í sínum eigin rétti og fullorðin atvinnugrein í hópi slíkra.
    Í þriðja lagi er tillaga um verulega breytingu á skipan ferðamálaráðs að fækkað verði úr núverandi 23 fulltrúum, ef ég man rétt, niður í níu þannig skipaða að ráðherra tilnefni einn í stað fimm nú. Fjórir yrðu tilnefndir af öðrum aðilum sem væru stærstu hagsmunaaðilar í ferðaþjónustunni og fjórir yrðu kosnir á ferðaþingi.
    Í fjórða lagi má nefna að verkefni Ferðamálaráðs eru skilgreind upp á nýjan leik og verða meira á sviði stefnumótunar í ferðamálum en nú er og verða þá bundin og tengd ferðamálastefnu hvers tíma. Frv. gerir ráð fyrir því að starfrækt verði skrifstofa ferðamála og hún fái meira sjálfstæði en sú sem nú starfar um daglegan rekstur undir forustu ferðamálastjóra. Í frv. er kveðið á um samstarf ferðamálaráðs við utanrrn. og Útflutningsráð Íslands um landkynningu og markaðsmál. Það er sömuleiðis nýmæli. Í gildandi lögum eru ekki ákvæði um samstarf, skipulagt eða lögbundið samstarf af því tagi.
    Þá er veitt heimild í lögunum til handa Ferðamálaráði að gerast beinn þátttakandi í eða aðili að rekstri ferða- og upplýsingamiðstöðva í kjördæmum landsins í samvinnu við heimaaðila. Í áttunda lagi er vikið að ferðamálafulltrúum og stuðningi ríkisins við þá. Í níunda lagi er lögð mikil áhersla á umhverfisvernd sem eitt af meginverkefnum Ferðamálaráðs og Náttúruverndarráði er tryggð aðild að ráðinu. Í tíunda lagi er vikið að formlegu samstarfi Ferðamálaráðs við opinbera aðila um málefni fjölsóttra ferðamannastaða og er þá aftur á ferðinni ekki síst að tryggja umhverfisvernd.
    Frv. gerir ráð fyrir því að markaður tekjustofn Ferðamálaráðs haldist óbreyttur, en að skilyrði megi setja um mótframlög frá hagsmunaaðilum til einstakra verkefna. Þannig var má segja miðlað málum milli ólíkra sjónarmiða sem annars vegar gengu í grófum dráttum út á óbreytt eða jafnvel aukið hlutverk ríkisins á þessu sviði en hins vegar þau sjónarmið sem uppi voru og hafa verið að hagsmunaaðilarnir sjálfir ættu að leggja meira af mörkum í þessu skyni. Hér er valin sú leið að núverandi tekjustofn haldi sér óbreyttur en lögin gera ráð fyrir því að skilyrða megi fjárstuðning í tilteknum tilvikum eða í tiltekin verkefni við mótframlög hagsmunaaðila.
    Vikið er að lánstíma Ferðamálasjóðs og gert ráð fyrir að hann mundi lengjast með þessum lagaákvæðum úr 15 árum í allt að 40. Fram hefur komið að skammur lánstími er mörgum þungur í skauti sem eru að ráðast í fjárfestingar eða uppbyggingu á þessu sviði. Komið er inn á möguleikana á því að setja á fót áhættulánadeildir við Ferðamálasjóð, m.a. vegna þróunarverkefna. Hér eru allnýstárleg ákvæði um ferðamiðlun sem taki bæði til ferðaskrifstofa og skipuleggjenda ferða, umboðssala og fyrirtækja sem reka tölvukerfi fyrir bókanir og upplýsingar. Enn fremur er löggjöfin mjög einfölduð hvað varðar ákvæði um veitinga- og gistihús. Þar sem nú eru í lögum allítarleg ákvæði um flokkun slíkra staða er gert ráð fyrir því að rammalöggjöf yrði látin nægja en hliðstæð ákvæði þá sett í reglugerð. Ýmiss konar þjónusta og afþreyingarstarfsemi fyrir ferðamenn er gerð skráningarskyld samkvæmt frv. og lögð er áhersla á neytendavernd og komið er inn á neytendavernd í lögunum en slík ákvæði er ekki að finna í gildandi löggjöf.
    Þetta má segja að séu í sem allra stystu máli sagt helstu nýmælin og meginbreytingarnar samkvæmt þessu frv. Ég tel að þó það sé nú endurflutt tveimur árum eftir að það kom fyrst fram, þá sé það að öllu leyti í fullu gildi og væri til mikilla bóta miðað við gildandi löggjöf sem er að nokkru leyti komin til ára sinna og í vissum tilvikum beinlínis hamlandi á framþróun í greininni að mati þeirra hagsmunaaðila sem komu að því að semja þetta frv. Það er að sjálfsögðu ekki mín trú, þó bjartsýnismaður sé, hæstv. forseti, að mál þetta nái afgreiðslu á yfirstandandi þingi sem skammt lifir af, sumardagurinn fyrsti á morgun, en með því að endurflytja það hér taldi ég mig leggja mitt af mörkum til þess að koma ferðamálunum á dagskrá á nýjan leik. Ég teldi æskilegt að hv. nefnd sem væntanlega fær málið til meðferðar kæmi því út til umsagnar og þá fengi það þá umferð á nýjan leik hver viðhorf helstu hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni eru til lagasetningar í þessa veru og í öllu falli er að því gagn frekar en ekki að mínu mati að hreyfa við málefnum greinarinnar úr því að svo óbyrlega blæs sem raun ber vitni í hæstv. ríkisstjórn að þar hefur ekki náðst samstaða milli ráðherra um að leggja fram neitt á þessu sviði.
    Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. samgn.