Ferðaþjónusta

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 17:46:35 (7436)


     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er með þessu frv. til laga um ferðaþjónustu hreyft í senn mjög mikilvægu máli en vandmeðförnu. Ég geri ráð fyrir því að sú staðreynd að þetta frv. er nú endurflutt af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem gegndi því mikilvæga embætti í ferðaþjónustu að vera samgrh. í síðustu ríkisstjórn, endurspegli á vissan hátt ákveðna erfiðleika sem eru fólgnir í því að taka á þessum vanda. Ég tel fullvíst að ekki hafi hann skort til þess áhuga að taka á þessu vandamáli en engu að síður er staðreynd málsins sú að hér er verið að flytja í senn frv. til laga um ferðaþjónustu og till. til þál. um ferðamálastefnu sem ekki tókst að koma í gegn í tíð síðustu ríkisstjórnar.
    Ég þykist alveg vita það að núv. ríkisstjórn muni einnig verða í erfiðleikum með að taka á þessu vandamáli þó að til þess standi mikil efni að á því verði tekið. Ég er 1. flm. þessa frv. mjög sammála um að það er afar brýnt að tekið verði á málinu. Ég tel hins vegar fullvíst að það verði nokkur aðdragandi að því og nauðsynlegt að mótuð verði heildstæð stefna í ferðamálum fyrir Íslendinga og það held ég að eigi í og með rætur að rekja til þess hversu vandamálið er flókið og erfitt að taka á því. Hins vegar er mjög mikilsvert að hefja hið fyrsta þessa vinnu og þau gögn sem hér eru lögð fram. Frv. ásamt fylgigögnum er að mínu mati mjög mikilvægt framlag til þessarar umræðu. Ég hef sjálfur samið þáltill. um þetta mál sem nálgast talsvert mikið þetta frv. ásamt þeirri till. til þál. sem hér er einnig á dagskrá í dag þó að sú þáltill. sem ég er flm. að leggi hugsanlega meiri áherslu á rannsóknarsviðið sérstaklega og þróunarsviðið og mun ég koma að því þegar það mál verður á dagskrá.
    Ég kvaddi mér hljóðs til þess að undirstrika það að hér er verið að hreyfa afar þýðingarmiklu máli sem nauðsynlegt er að ýta úr vör og ég lít á þau gögn sem hér hafa verið lögð fram með þessu frv. og frv. sjálft sem markvert framlag til þessara mála og það muni stuðla að því að á þessu máli verði tekið föstum tökum. En ég kvaddi mér einnig hljóðs til þess að undirstrika að það er vandmeðfarið mál og því til sönnunar get ég nefnt að mér er kunnugt um það að mjög margar þjóðir eiga í mjög miklum erfiðleikum með að fóta sig í stefnumörkun í ferðamálum. Það hefur m.a. tjáð mér Bryan C. Clarke, sem er forstöðumaður sjálfstæðrar rannsóknarstofnunar í umhverfismati einkum og sér í lagi. Sú stofnun er raunar viðurkennd af Sameinuðu þjóðunum sem sérstök stofnun á sviði umhverfismála og umhverfismats en hefur einnig fetað sig talsvert mikið inn á þær slóðir að skoða ferðamálin sérstaklega vegna tengsla þeirra við umhverfismálin. Hann hefur undirstrikað við mig að það væri mjög erfitt að taka á þessum málum og menn stæðu víða ráðþrota frammi fyrir því hvernig þeir ættu að móta ferðastefnu svo vel færi og þá er verið að tala um ferðastefnu sem kannski mætti orða sem sjálfbæra ferðastefnu, ferðstefnu sem gangi ekki á þá auðlind sem hún byggist á. Í þessu frv. er sérstaklega tekið á þessum tengslum umhverfismálanna við ferðamálin og það hygg ég að sé undirstöðuatriði að samtengja það.
    Ég vil að lokum fagna því að þetta frv. hafi verið lagt fram og tel að það sé markvert framlag til

markvissari umræðu um þetta mikilvæga mál.