Ólympískir hnefaleikar

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 14:46:34 (7448)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Það er að vonum að hv. 2. þm. Vesturl. kvarti yfir því hvernig umræðan er sundur slitin þannig að erfitt verði að halda uppi heillegri umræðu um mál og ég get tekið undir þær umkvartanir þingmannsins. Ég vil minna á það að ég mælti fyrir þessu máli fyrir alllöngu, vel fyrir páska og gert var ráð fyrir því að umræðu yrði fram haldið mjög fljótlega eftir mína framsöguræðu ef ekki sama dag. Það hefur hins vegar atvikast þannig að málið hefur ekki komist að til umræðu og kemur mjög skyndilega til umræðu í dag þannig að hvorki mér né öðrum flm. var gert viðvart um að vera tiltækir eða sérstaklega undirbúnir með okkar skjöl þegar málið yrði til framhaldsumræðu og ég veit að 2. flm. málsins var á mælendaskrá. Ég verð að taka undir það að það er afar bagalegt að skipulag þinghaldsins skuli vera með þeim hætti að menn hafi ekki vitneskju um hvað fram undan er næsta þingdag þegar þingdegi lýkur. Það kemur auðvitað niður á þessu máli eins og svo mörgum öðrum.
    Hvað varðar þá efnislegu umfjöllun sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., þá kom greinilega fram hjá honum ákveðin skoðun gagnvart greininni sem er ekkert við að segja. Menn hafa fullt frelsi til þess að hafa sína skoðun á málum og ekki amast ég við því. Hins vegar tók ég eftir því að ræðumaður fjallaði ekkert um hið raunverulega innihald tillögunnar sem er að afla upplýsinga um greinina. En þáltill. er þannig fram sett að hér er ekki verið að leggja til að hnefaleikar verði leyfðir. Það vænti ég að hv. þm. átti sig á. Hér er hins vegar verið að leggja til að afla upplýsinga um þessa grein hnefaleika og á grundvelli þeirra upplýsinga verði síðan frekari ákvarðanir teknar. Og rökstuðningur fyrir því að ástæða væri til að taka þetta mál til athugunar er einkum af tvennum toga. Það fyrra að íþróttagreinin hefur mjög mikið breyst frá því að lögin um bann við hnefaleikum voru sett árið 1956 og þróast sérstakt afbrigði sem nefnist ólympískir hnefaleikar sem tillagan fjallar um. Það lá ekki fyrir þá og er auðvitað í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa sjálfsagt að endurskoða forsendur sem lágu að baki lagasetningunni á sínum.
    Hið síðara er rannsóknir sem fram hafa farið á þessari íþróttagrein og þeir sem keppt hafa í henni. Meðal þeirrar þjóðar sem hvað mestar efasemdarraddir hafa verið uppi um hvort leyfa ætti þessa íþróttagrein eða ekki, þ.e. Svía, og ég rakti í mínu máli niðurstöður sænsku skýrslunnar frá 1990 sem er afar athyglisverð og ég vænti þess að menn taki nú þær niðurstöður trúanlegar. Þær niðurstöður eru líka rökstuðningur fyrir því að taka málið til athugunar og afla gagna til þess að fá frá fleiri áttum upplýsingar um þessa íþróttagrein og þá sem stundað hafa keppni í henni.
    Niðurstöður sænsku skýrslunnar, sem fjallaði bæði um líkamsmeiðsl og áhrif á andlegt atgervi manna eða félagslega stöðu í þjóðfélaginu sem var mjög víðtæk, eru einmitt gagnstæðar því sem fram komu í máli hv. 2. þm. Vesturl. eins og t.d. sú fullyrðing að hnefaleikar hvetji til árásargirni. Það er ekki niðurstaða sænsku skýrslunnar. Þvert á móti var það niðurstaða hennar að þeir menn sem höfðu iðkað hnefaleika reyndust vera ekki síðri þjóðfélagsþegnar en aðrir, þ.e. íþróttamenn sem stundað höfðu aðrar greinar, og reyndar kom það sænsku rannsóknarlæknunum mjög á óvart að þeir virtust miklu frekar vera í jafnvægi og sátt við þjóðfélagið heldur en iðkendur í öðrum íþróttagreinum sem þeir notuðu til samanburðar, þ.e. í knattspyrnu og frjálsum íþróttum. Þeir fundu engar vísbendingar í þá átt að persónuleiki þeirra sem höfðu iðkað hnefaleika hefði breyst í þessa veru, heldur þvert á móti hið gagnstæða. Og auðvitað verður maður að taka slíkar niðurstöður alvarlega, taka mark á þeim og hugsa málið út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir.
    Þá var einnig varðandi meiðslin kannað sérstaklega hvort höfuðmeiðsl væru algengari eða alvarlegri meðal keppenda í hnefaleikum en í knattspyrnu og frjálsum íþróttum og það kom ekkert fram sem benti til þess að svo væri. Það er því ekki annað að sjá miðað við þessa ítarlegu könnun en að það sé full ástæða til þess að kanna rækilega og leita af sér allan grun um það hvort þessi sænska niðurstaða sé í samræmi við niðurstöður manna í öðrum löndum.
    Þær forsendur sem menn notuðu til þess að banna íþróttagreinina hafa í raun verið afsannaðar með sænsku skýrslunni. Því er það eitt og sér næg ástæða til að taka málið upp til endurskoðunar.
    Enn ein ástæða er til þess að líta á málið er sú staðreynd að íþróttir aðrar en hnefaleikar eru ekki bannaðar. Um íþróttir gilda sérstök lög, íþróttalög, og samkvæmt þeim er meginreglan þannig að allar íþróttagreinar eru leyfðar. Það er einfaldlega á valdi sérsambanda ÍSÍ og ÍSÍ sjálfs að ákveða hvað er leyft og hvað er bannað, þeir geta gert það. En menn geta hér hafið iðkun á hvaða íþróttagrein sem er án þess að spyrja nokkurn að því. Og meðan það er niðurstaðan í okkar þjóðfélagi að hafa þá meginreglu að íþróttir séu leyfðar nema þær séu sérstaklega bannaðar með sérstökum lögum, þá finnst mér ástæða til þess varðandi þá einu íþróttagrein sem bönnuð er með lögum að taka málið til endurskoðunar þegar gögn benda til þess með fullgildum rökum að forsendur bannsins eigi ekki við. Í mínum huga snýst þetta líka um stefnu í íþróttamálum. Ætlum við að láta þessa stefnu gilda sem að öðru leyti er eða ætlum við að taka út úr einstaka greinar og banna þær með lögum á óljósum forsendum?
    Það er hægt að nefna ýmsar íþróttagreinar hér á landi sem eru hættulegar og hafa orðið alvarleg slys af en engum hefur dottið í hug að flytja mál um að banna. Við getum nefnt ýmsar íþróttagreinar af austurlenskum toga sem hér eru iðkaðar eins og karate og ýmis afbrigði af þeirri íþróttagrein. Það er hægt að nefna algengar íþróttagreinar eins og knattspyrnu. Ég held að slysatíðni og meiðsl af knattspyrnu séu afar mikil og það þekki ég sjálfur af eigin raun, bæði með að hafa lifað og hrærst í því um langan tíma og verið þátttakandi, að margir eru afar illa farnir eftir knattspyrnuiðkun. En engu að síður hefur engum þingmanni dottið í hug að flytja hér frv. um að banna knattspyrnu.
    Menn verða aðeins að gæta að forræðishyggjunni í þessu. Ef það á að vera meginstefna sem ég er út af fyrir sig sammála að leyfa íþróttaiðkun, þá þarf sérstök rök ef það á að taka tilteknar greinar út úr og banna þær. Ég held að við ættum að láta það í hendur íþróttasambandanna að sjá um framkvæmd og eftirlit í þeim efnum. Telji menn hins vegar rétt að grípa inn í og banna tilteknar greinar, þá geta menn ekki staldrað eingöngu við hnefaleika því að þá þurfa menn að líta yfir miklu fleiri íþróttagreinar og ef menn nota þær forsendur sem upphaflega voru notaðar, þegar bannað var sett, þá lenda menn óhjákvæmilega í því að banna fleiri íþróttagreinar en nú eru bannaðar, ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir í sinni aðferðafræði.
    Hér var spurt um markmið hnefaleika, þá væntanlega ólympískra hnefaleika. Markmið þeirra sem stunda keppni er að vinna leik og leik vinna menn á stigum fyrst og fremst. Markmiðið er ekki að slá menn niður heldur er markmiðið að vinna á grundvelli úthalds og tækni. Ég held að þau gögn sem ég nefndi og vitnaði í í minni framsögu ættu að vera nægjanleg staðfesting þess að þessi grein eða það sem á þessu stigi er vitað um hana, sé ekki hættulegri en aðrar og jafnvel að sumu leyti síður því að það er afar mikið lagt upp úr öryggisgæslu í þessari íþróttagrein, miklum mun meira en í öðrum sem væri kannski full ástæða til þess að færu inn á svipaðar brautir og hnefaleikamenn hafa gert erlendis.
    Ég get nú í sjálfu sér ekkert sagt um þátt fjölmiðla í málinu, ég leiði það hjá mér. Það er þeirra að taka á málum og þeir ráða því sjálfir. Sumum málum gera þeir góð skil, öðrum ekki og það þarf ekki endilega að vera gert eftir því mati sem okkur finnst að ætti að vera. Við verðum bara að una því. Sum mál sem manni finnst sjálfum vera mikilvæg mál, fá hér enga umfjöllun í fjölmiðlum og við því er ekkert að gera. Það er einfaldlega utan við okkar verksvið að skipta okkur af því þótt þau sjónarmið séu greinilega nokkuð uppi innan núv. ríkisstjórnar að það sé ekki, að menn eigi að skipta sér dálítið af því hvernig fjölmiðlar fjalla um mál. En það er lota sem við getum tekið hér á öðrum tíma undir öðru máli hvernig stjórnmálamenn eiga að skipta sér af fjölmiðlum.
    Að öðru leyti held ég að hafi ekki verið í ræðunni hér áðan atriði sem gefa tilefni til frekari svara og skýringar en ég hef þegar reitt fram. Ég vil að endingu leggja á það áherslu að menn líti á þetta mál eins og hver önnur út frá efni sínu og forsendum og láti ekki fordóma sem byggðir eru á öðrum grunni ráða afstöðu sinni til máls. Það er mikilvægt í þessu máli sem öðrum að menn taki mark á því sem fyrir liggur af upplýsingum og staðreyndum og ákvarðanatakan verði út frá því en síður út frá órökstuddum tilfinningum og efni þessarar tillögu er eins og ég gat um í upphafi að afla upplýsinga þannig að menn hafi betri grunn til að standa á þegar til þeirrar ákvörðunartöku kemur hvort menn eigi að halda sig við núgildandi lög eða breyta þeim. Það er nákvæmlega það sem tillagan snýst um, það er að afla upplýsinga og vitneskju og ég vænti þess að varla sé nokkur þingmaður á móti því.