Ólympískir hnefaleikar

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 15:00:31 (7449)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. flm. fór aftur yfir sviðið og sagði að menn mættu ekki vera með fordóma eða órökstudda tilfinningasemi í sambandi við þessa tillögu og ég er alveg sammála því. Ég var með ákveðna spurningu sem hann reyndi að svara. Hann svaraði henni reyndar ekki fullkomlega að mínu mati. Ég spurði hann hvert væri markmið þessarar íþróttar og hann sagði það að vinna leik með úthaldi og tækni. Mér sýnist tæknin vera í því fólgin að vanka viðkomandi einstakling þannig að hann annaðhvort rotist eða alla vega vankist svo að hann geti ekki staðið upp aftur. Það eru þeir fordómar sem ég hef fyrir þessari tillögu.
    Hann sagði einmitt og mér fannst hann mjög draga í land og ég skil hann vel, hann dró mjög í land og sagði að það ætti eftir að skoða hvort leyfa ætti þessa íþrótt. En hv. flm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Ingi Björn Albertsson hljóta að vera að leggja þetta mál fram vegna þess að þeir hafa trú á því að þetta sé hið besta mál. Það getur ekki annað verið, annars mundu þeir láta það óhreyft. Af því að flm. var að tala um það líka að það væru ýmsar aðrar íþróttir sem væru hættulegar og ekki bannaðar, þá hef ég ekki heyrt neitt t.d. talað um það að hér þyrfti að fara að keppa í japanskri glímu eða eitthvað slíkt. ( KHG: Það er gert.) Það er ekki gert, hv. þm., ekki þessari hefðbundnu.
    Það kom einmitt fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það væri búið að rannsaka þetta mjög mikið í Svíþjóð varðandi slysatíðni og hann sagði líka það í sinni framsögu fyrir rúmum mánuði síðan að félagslega gengi mönnum betur, þeim sem stunda þessa íþrótt en almennt og ég spyr nú bara: Er það hnefarétturinn sem hefur valdið því að þeim hefur gengið svona sérstaklega vel félagslega sem keppendur í Svíþjóð?