Námsbraut í öldrunarþjónustu

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 15:34:40 (7455)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna þessarar till. til þál. vil ég taka fram að fyrirhugað er að skipuleggja nám

í öldrunarfræðum á framhaldsskólastigi í samvinnu menntmrn., heilbrrn. og hagsmunaaðila, þ.e. atvinnurekenda og samtaka launþega.
    Á síðustu árum hafa viðhorf í öldrunarþjónustu gerbreyst. Það er ekki lengur talið æskilegt að líta á öldrunarþjónustu eingöngu sem umönnunarstörf í anda hjúkrunar, heldur er stefnan sú að gera öldruðum kleift að lifa eðlilegu lífi og þjónustan felist mest í að hjálpa þeim með það nauðsynlegasta og veita félagslega hvatningu og uppörvun. Fyrirsjáanlegt er að öldruðum muni fjölga ört á komandi árum og því mikilvægt að byggð verði upp þjónusta sem sinni þessu fólki.
    Stefnan í þessum málum er að breyta viðhorfum almennings til öldrunar og m.a. að hvetja einstaklinga til að huga að öllum lífsferli sínum strax og fullorðinsaldri er náð. Þannig er fólk hvatt til að axla aukna ábyrgð á eigin afkomu og aðstæðum á efri árum.
    Það er ljóst að með auknum fjölda aldraðra eykst þörfin fyrir fagmenntað fólk sem kann að sinna þjónustu við þá. Á grundvelli kjarasamninga getur ófaglært starfsfólk í umönnunarstörfum sótt svonefnd kjarna- og valgreinanámskeið, alls 270 stundir, og veita þessi námskeið kaupauka. Innan opinbera menntakerfisins hefur þessu málefni hins vegar ekki verið sinnt sem skyldi.
    Í áfangaskýrslu nefndar um mótun menntastefnu kemur fram að brýn þörf er á að skipuleggja stuttar starfsnámsbrautir. Af hálfu menntmrn. er vilji fyrir því að standa að skipulagningu nokkurra brauta sem gætu verið eins konar fyrirmynd námsskipulags á öðrum sviðum. Nám í öldrunarfræðum er ein slík námsbraut og nú er verið að hefja skipulagningu á slíku námi eins og ég sagði í upphafi. Hugmyndin er að um verði að ræða eins og hálfs til tveggja ára nám sem deilist á nokkur námstímabil, ýmist á vinnustað eða í skóla. Mikilvægt er við skipulagningu á stuttu starfsnámi að höfð séu náin samráð við hagsmunaaðila því áður en námið er skipulagt þarf að nást samkomulag um starfssvið og starfsréttindi. Slík samráðsvinna er nú að hefjast að frumkvæði menntmrn.
    Þetta vildi ég upplýsa, hæstv. forseti, af þessu tilefni. Hér er hreyft þörfu máli, en undirbúningur er sem sagt þegar kominn af stað. Það er sjálfsagt að þetta mál fái engu að síður athugun í hv. menntmn.