Skýrsla um stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsóknar- og þróunarmálum

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 13:36:01 (7461)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þann 29. mars sl. bar ég fram þá fyrirspurn til hæstv. menntmrh. hvenær væri að vænta skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsóknar- og þróunarmálum, en sú beiðni sem snertir þessa skýrslu var lögð fyrir hv. Alþingi að ég hygg í októbermánuði. Samkvæmt þingsköpum mega líða mest 10 vikur frá því er skýrslubeiðni er lögð fram og samþykkt og þangað til skýrsla er lögð fram. Í þeim umræðum sem fram fóru 29. mars sl. sagði hæstv. menntmrh. að viðkomandi skýrsla yrði tilbúin í næstu viku, þ.e. þá væntanlega fyrir 6. apríl eða svo. Nú er sú dagsetning liðin og ég spyr hæstv. menntmrh. á ný: Hvenær er þess að vænta að hæstv. ríkisstjórn leggi fram skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar í rannsóknar- og þróunarmálum?