Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 13:43:09 (7466)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að hryggja hv. þm. Össur Skarphéðinsson með því að ég mun gera ráðstafanir til að raska svefnró hans snarlega í þessu máli þannig að iðnn. geti fjallað um þetta mál. Það er rétt sem hann sagði að um það var fullt samkomulag að um frv. Hjörleifs Guttormssonar og fleiri hv. þm. yrði fjallað samhliða stjfrv. sem þá var væntanlegt alveg næstu daga. Nú hefur hins vegar ekkert bólað á því og það er auðvitað brýnt að á málinu verði tekið og það verður þá að gera það á grundvelli fyrirliggjandi frv. frá Hjörleifi Guttormssyni og fleiri hv. þm. Hins vegar hlýtur það að vekja athygli að þetta mál skuli ekki vera komið enn þá frá hæstv. ráðherra eins og hann lagði mikla áherslu á að fá það fram. Mér sýnist það benda til þess að það sé sjóðandi ágreiningur um málið á milli stjórnarflokkanna. En það gengur náttúrlega ekki að láta það tefja jafnmikilvægt mál og þetta og verður þá að taka það úr höndunum á stjórnarliðinu og afgreiða það með öðrum hætti.